Nágrannasveitarfélögin greiði tengingar

Höfuðborgarlistinn vill að Kópavogur borgi fyrir Kársnesbrú. Björg Kristín Sigþórsdóttir …
Höfuðborgarlistinn vill að Kópavogur borgi fyrir Kársnesbrú. Björg Kristín Sigþórsdóttir oddviti listans fremst á mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höfuðborgarlistinn sem býður fram til borgarstjórnar í Reykjavík í vor hefur sett fram lista yfir stefnumál sín á vefinn. Þar er fjallað um áherslur framboðsins í samgöngumálum kemur meðal annars fram að framboðið vilji að tenging Skerjafjarðar, Kársness og Álftaness verði „útbúin sem fyrst á kostnað Kópavogsbæjar og Garðabæjar.“

Bæjarstjórar nágrannasveitarfélaganna tveggja eru ekki hrifnir af hugmyndinni.

Björg Kristín Sigþórsdóttir, oddviti Höfuðborgarlistans segir í skriflegu svari sínu við fyrirspurn mbl.is um þetta stefnumál að afstaða Höfuðborgarlistans sé sú að vegtengingar úr Vatnsmýri yfir Skerjafjörð til Kársness og Álftaness myndu skila nágrannasveitarfélögunum meiri ávinningi en Reykjavíkurborg. Meðal annars sé tenging með brú inn á Skerjafjörð forsenda uppbyggingar Kópavogsbæjar á Kársnesi.

„Því viljum við að Kópavogsbær greiði fyrir [brúnna] og fjármagn sem sækja á til ríkisins haldist óbreytt til annarra nauðsynlegra framkvæmda í Reykjavík s.s. að gera við holurnar í götunum,” segir í svari Bjargar, sem nefnir einnig að Reykjavíkurborg hafi ekki sent Höfuðborgarlistanum samning og samkomulag sem gert hafi verið við Kópavogsbæ um byggingu brúar yfir Kársnes.

Hún segir Höfuðborgarlistann vilja að fjármagnið sem borgin fær frá ríkinu til vegaframkvæmda fari í framkvæmdir í Reykjavík.

„Við hjá Höfuðborgarlistanum teljum þetta ekki viðeigandi korter fyrir kosningar að núverandi valdhafar í Reykjavíkurborg séu að skuldbinda ríkissjóð til framkvæmda sem séu meira hugsuð fyrir uppbyggingu í Kópavogi en Reykjavík. Því segjum við að Kópavogur á að greiða fyrir brúnna.“

Kópavogsbær horfi á samgöngukerfið sem eina heild

Kársnesbrú hefur verið hugsuð sem sameiginlegt verkefni Kópavogsbæjar og Reykjavíkur. Einnig hefur verið óskað eftir aðkomu Vegagerðinnar að verkefninu þar sem samkvæmt skipulagi er brúin nú hugsuð sem göngu- og hjólabrú með akrein fyrir strætó. 

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi mbl.is/Kristinn Magnússon

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi segist telja að einhver misskilningur sé þarna á ferðinni.

„Síðustu sameiginlegu tillögur sem Kópavogur og Reykjavíkurborg hafa staðið sameiginlega að og tengjast ríkissjóði þýða 25 milljarða króna framkvæmd í Reykjavík á móti einum milljarði í Kópavogi. Af þessu má sjá að Kópavogsbær horfir á samgöngukerfið í heild sinni með þágu allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu í huga,“ segir Ármann og vísar þar til fyrsta áfanga Borgarlínu.

„Ég vona að verðandi fulltrúar í borgarstjórn geri það líka. Fulltrúar framboðs með svo stórt nafn, sem Höfuðborgarlistinn er, eiga auðvitað að bera höfuðið hátt en ekki að detta í það að vera smáir í hugsun gagnvart velviljuðum og góðum nágrönnum sínum,“ segir Ármann.

Brosir út í annað yfir hugmyndinni

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ segir í samtali við mbl.is að hver listi hafi sína stefnu og framsetningu á henni, en að hann brosi þó út í annað yfir þessu stefnumáli Höfuðborgarlistans.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst svona við fyrstu sýn að menn þurfi að kynna sér málin vel, hvaða skipulög eru í gangi og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig,“ segir Gunnar og bendir á að þessi hugmynd, um vegtengingu Álftaness við Vatnsmýri sé hvorki í svæðisskipulagi né aðalskipulagi Garðabæjar.

„Höfuðborgarlistinn er nú bara að fiska í einhverju gruggugu vatni þarna. Það kemur ekkert til greina að fara með einhverja massa-umferð um Álftanesið, sem við erum að skipuleggja sem sveit í borg,“ segir Gunnar.

„Það má hugsa sér einhverja hjólabraut þarna yfir en við erum ekki að fara að taka neina umferð þarna, enda var það kannað á sínum tíma hvort það væri hagkvæmt þegar síðasta svæðisskipulag var gert og það kom út að það væri engin hagkvæmni í því.“

mbl.is