Guðmundur Karl leiðir í Reykjavík

Frambjóðendur Íslensku þjóðfylkingarinnar eftst tv. Hjördís Bech Ásgeirsdóttir, Guðmundur Karl ...
Frambjóðendur Íslensku þjóðfylkingarinnar eftst tv. Hjördís Bech Ásgeirsdóttir, Guðmundur Karl Þorleifsson og neðst t.v. Jens G. Jensson. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska þjóðfylkingin  kynnti í dag framboð sitt í Reykjavík og fólkið í þremur efstu sætunum, en þau skipa Guðmundur Karl Þorleifsson, formaður flokksins, Hjördís Bech Ásgeirsdóttir og Jens G. Jensson. 

Helstu áherslumál flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar eru, að því er fram kemur í fréttatilkynningu, að draga til baka lóð undir mosku og allar leyfisveitingar vegna viðbyggingar á bænahúsi múslíma í Öskjuhlíð. Þá hafnar flokkurinn einnig þéttingu byggðar á kostnað grænna svæða.

Meðal annarra áherslumála er að endurvekja verkamannabústaðakerfið, gera Reykjavík fjölskylduvænni með opnum svæðum, hafa gjaldfrjálst í strætó, flytja stofnanir borgarinnar burt úr miðbænum, hreinsa götur reglulega til að draga úr svifryki og byggja hjúkrunarheimili og íbúðir fyrir aldraða.

Þá hafnar þjóðfylkingin borgarlínu en vill þess í stað nýta það fjármagn sem Vegagerðin á að greiða til verkefnisins í uppbyggingu mislægra gatnamóta, en með því móti geti umferð farið „óhindrað farið eftir aðalstofnæðum borgarinnar“.

mbl.is