Dagur ósáttur við fréttina og myndina

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fréttaflutningur Fréttablaðsins um nýja skoðanakönnun þess á fylgi framboða í Reykjavík er Degi B. Eggertssyni borgarstjóra ekki að skapi en hann gagnrýnir fréttaflutninginn harðlega á Facebook-síðu sinni í morgun. Þar á meðal val blaðsins á mynd af honum.

Dagur segir að það sé „nokkuð magnað fréttamat hjá Fréttablaðinu að slá því upp að kjósendur Sjálfstæðisflokks og Vigdísar Hauksdóttur séu ekki ánægðir með mig í embætti en geta þess aðeins í framhjáhlaupi að 45% borgarbúa segist vilja að ég verði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Það er ekki aðeins afgerandi mesti stuðningur nokkurs borgarstjóraefnis heldur jafnframt um 50% meiri stuðningur en mælist við Samfylkinguna.“

Samfylkingin hafi raunar rúmlega tvöfaldað fylgi sitt frá því í skoðanakönnun Fréttablaðsins síðasta haust. Gagnrýnir Dagur að ekki sé samanburður við þá könnun í stað þess að miða við niðurstöður síðustu borgarstjórnarkosninga. Dagur segist mjög ánægður með nýju könnunina og þakklátur fyrir stuðninginn. Hún sé byr í seglin. Sakar hann Morgunblaðið ennfremur og fleiri um „ótrúlega neikvæðni“ í hans garð.

„Og svo það sé nefnt þá að það hreint algjör óþarfi af Fréttablaðinu að birta af mér mynd sem lítur út einsog ég hafi misst náin ástvin. Ég er í toppformi og góðu stuði en sýnist á öllum sólarmerkjum að þið, góðu vinir, og annað gott fólk þurfið að leggjast á árarnar með okkur og tala okkar máli. :) Læt þessa dásamlegu mynd Fréttablaðsins fylgja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina