Fasteignaskattar eldri borgara aflagðir

Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir ræddu við flokksmenn að fundi …
Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir ræddu við flokksmenn að fundi loknum. mbl.is/Eggert

Fasteignaskattar eldri borgara, 70 ára og eldri, verða lagðir niður komist Sjálfstæðisflokkurinn til valda í borginni eftir kosningar. Þetta kom fram á kynningarfundi flokksins í Iðnó í morgun. Eyþór Arnalds, oddviti flokksins, sagði gjöld á eldri borgara hafa hækkað upp úr öllu valdi síðustu ár og breytinga væri þörf.

Fasteignagjöld í Reykjavík voru lækkuð um tíund, úr 0,20% af fasteignamati niður í 0,18% á þessu ári. Þá var afsláttur, sem borgin veitir tekjulágum öryrkjum og ellilífeyrisþegum, aukinn. Í dag fá eldri borgarar niðurfelld fasteignagjöld séu tekjur þeirra undir 325.000 krónum á mánuði, 80% afslátt séu tekjur undir 373.000 krónum, og helmingsafslátt séu tekjur undir 434.000 krónum.

Ef af breytingunni yrði, væru eldri borgarar undanskildir fasteignaskatti óháð tekjum.

Betri strætó, minni tafir

Á fundinum kynnti Eyþór sex tillögur til úrbóta á sex vandamálum, sem brýnast væri að leysa. Bættar almenningssamgöngur, tíðari ferðir strætó og betri skýli, snjallstýrð umferðarljós og úrbætur í vegamálum skulu stytta ferðatíma til og frá vinnu um 20%.

Tryggt verði að öll börn fái leikskólapláss við 18 mánaða aldur með auknu sjálfstæði leikskólanna, fjölgun dagforeldra og hækkun lægstu launa á leikskólum, sem dragi úr manneklu.

Eyþór gerði svifryksmengun í borginni einnig að umtalsefni. Þrífa þurfi borgina oftar og tryggja að svifryksmengun fari ekki yfir heilsuverndarmörk. Það verði gert með því að sópa og spúla borgina oftar, en Eyþór sagði mörg hverfi borgarinnar einungis þrifin tvisvar sinnum á ári. Með þessum aðgerðum og fleirum gæti Reykjavík orðið með hreinustu borgum Evrópu.

Hann lofaði sparnaði í stjórnkerfi borgarinnar, án þess að fara nánar út í þá sálma. Þá verði afgreiðslutími innan borgarinnar á sama tíma styttur um helming.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka