Enginn myndi keyra, bara hlaupa

Krakkarnir á leikskólanum Sólborg í Sandgerði hafa ýmislegt til málanna …
Krakkarnir á leikskólanum Sólborg í Sandgerði hafa ýmislegt til málanna að leggja í umræðunni um sveitarstjórnarkosningarnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Krakkarnir á leikskólanum Sólborg í Sandgerði voru að ljúka við að borða hádegismatinn sinn, steiktan fisk, grænmeti og kartöflur, þegar blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins bar þar að garði um daginn.

Þau Bergrún Embla Hlynsdóttir 5 ára, Arndís Una Guðnadóttir 4 ára, Viktor Nóel Sveinsson 5 ára og Þórbergur Eriksson 6 ára, nemendur á Sólborg, gáfu sér tíma til að setjast niður og ræða komandi sveitarstjórnarkosningar og voru spurð um hvað þau myndu gera ef þau fengju tækifæri til að stjórna Sandgerðisbæ í einn dag eða svo.

„Ef ég myndi stjórna bænum myndi ég kaupa sandkassa með engu loki,“ stakk Bergrún upp á. „En kisur gætu kúkað í hann, kannski þarf að kaupa lok á hann,“ bætti hún við eftir nánari umhugsun. „Ég myndi stoppa umferðina,“ sagði Arndís. „Svo myndi ég borga peninga.“ Blaðamaður tók undir með Arndísi að það væri vissulega mikilvægt, bæði fyrir fólk og sveitarfélög, að borga skuldir sínar. Bergrún samsinnti því og sagði frá því að frænka hennar hefði eitt sinn verið stödd í verslun þar sem hún varð vitni að þjófnaði. „Hún sá fólk taka mat og fara út úr búðinni og borga ekki fyrir hann. Þau voru að stela!“ sagði Bergrún og viðstaddir tóku andköf af hneykslan. „Ef ég fengi alla peningana myndi ég vilja passa þá,“ sagði Viktor. Þórbergur var ekki í vafa um hvernig fjármunum sveitarfélagsins væri best varið. „Ég myndi kaupa dróna. Hann gæti horft á alla í bænum.“ 

Bæjarstjóri má ekki skamma

Börnin voru því næst spurð um hvort þau vissu hvað kosningar snerust um. Lítið varð um svör, en allir þekktu einhvern sem hafði kosið. „Ég held að mamma mín og pabbi myndu segja að það ætti að kjósa mig,“ sagði Bergrún. Myndirðu vilja stjórna bænum? spurði blaðamaður. „Já,“ var svarið. „Ég myndi líka vilja það,“ sagði Arndís og Þórbergur sagðist líka vel geta hugsað sér að stjórna bænum. „Ef ég væri bæjarstjóri myndi ég segja öllum að það mætti bara hlaupa í bænum,“ sagði Þórbergur. „Það myndi enginn labba, enginn keyra, enginn vera á hjóli – bara hlaupa.“

Spurður um hvað felist í starfi bæjarstjóra stóð ekki á svörum hjá Þórbergi: „Hann ræður bænum.“

Viktor sagðist ekki hafa áhuga á að gegna stöðu bæjarstjóra en gæti aftur á móti vel hugsað sér að verða fótboltamaður. Er ekki hægt að verða bæði bæjarstjóri og fótboltamaður? spurði fávís blaðamaður. „Nehei!“ var svarið.

Arndís, Bergrún og Þórbergur voru sammála um að Sandgerði væri góður bær, líklega sá besti í heimi, en Viktor taldi að ekki væri síðra að búa annars staðar: „Það er miklu betra að búa í Argentínu. Og í Portúgal.“ Spurður um hvað hann teldi betra þar en í heimabænum nefndi hann veðurfarið. „Þar er alltaf sól,“ sagði Viktor. En ræður bæjarstjórinn því? spurði blaðamaður. Eftir nokkurn umhugsunarfrest og umræður var hópurinn sammála um að kjörnir fulltrúar hefðu lítið vald yfir veðri og vindum.

Talið barst síðan að öðrum verkefnum bæjarstjóra og bæjarstjórnar og nokkrar umræður spunnust um hvort valdsvið bæjarstjóra næði yfir óþekk börn. „Bæjarstjóri má ekki skamma krakka,“ fullyrti Þórbergur og hópurinn tók undir það fullum hálsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert