Spurn eftir sætum á lista Miðflokksins

Sigmundur Davíð hélt stefnuræðu í Norðurljósasal Hörpu í dag.
Sigmundur Davíð hélt stefnuræðu í Norðurljósasal Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn mun bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í öllum stærri sveitarfélögum landsins. Hvar boðið verður fram er þó ekki endanlega ákveðið, en til skoðunar er að bjóða fram sameiginlega með öðrum framboðum eða flokkum á nokkrum stöðum. Stefnumál flokksins verða að mestu sniðin að hverju sveitarfélagi um sig, en þó með yfirlýst markmið flokksins um staðfestu í efndum á loforðum að leiðarljósi.

„Það er allt á fullu núna og þegar landsþingið klárast fer enn þá meiri kraftur í sveitarstjórnarmálin hjá okkur. Tími starfsfólks á skrifstofunni og hjá mér hefur allur farið í að undirbúa landsþingið. Strax á morgun einhendum við okkur í að klára undirbúning fyrir sveitarstjórnarkosningarnar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, í samtali við mbl.is.

„Við verðum með framboð í flestum stærri sveitarfélögum. Það er ekki alveg ákveðið með alla staðina enn þá. Alla vega verðum við alls staðar á höfuðborgarsvæðinu nema hugsanlega á Seltjarnarnesi. Það á eftir að afgreiða það. Síðan verðum við með framboð hér og þar víða um landið. Á mörgum stöðum er þetta enn í vinnslu, en það er þó búið að tilkynna framboð á nokkrum stöðum, t.d. í Árborg, og síðan kemur væntanlega tilkynning um Akureyri núna á næstu dögum,“ segir hann.

Meiri tími til undirbúnings

Sigmundur segir að fjöldi fólks hafi sóst eftir því að verma sæti framboðslista flokksins. Ekki líði á löngu þar til listarnir verði klárir.

„Við höfum haft meiri tíma í undirbúning núna en í þingkosningunum. Það sem hefur komið mér skemmtilega á óvart er hvað það hefur gengið vel að fá fólk í þetta með okkur. Það hefur ekki verið neitt vandamál að manna lista. Sumstaðar hefur þetta bara verið spurning um oddvita, en enginn skortur er á fólki til að vera með og taka þátt í kosningabaráttunni,“ segir hann.

Aðspurður segir Sigmundur að skoðað hafi verið að móta að einhverju leyti sameiginlega stefnu í sveitarstjórnarmálum hjá Miðflokknum, en niðurstaðan hafi verið sú að eftirláta heimamönnum að móta stefnuna að langmestu leyti.

„Ég hugsa að menn líti til ályktananna hér á landsþinginu, en fyrst og fremst munu framboðin hvert á sínum stað móta sína stefnu. Reykjavíkurframboðið hefur klárað að móta stefnumálin sín og mun kynna þau núna í vikunni veit ég. Sveitarstjórnarmálin eru svo ólík eftir stöðum, að menn gera þetta eftir sínu höfði á hverjum stað, þetta eru sértæk mál,“ segir hann.

Horfir til samgöngu- og skipulagsmála

Í stefnuræðu sinni horfði Sigmundur til umhverfis- og orkumála í því skyni að kynna aðferðafræði Miðflokksins. Sagðist hann næst myndu líta til samgöngu- og sveitarstjórnarmála með sama hætti, en í samtali við mbl.is segir hann að niðurstaða slíkrar greiningar muni liggja fyrir áður en sveitarstjórnarkosningarnar fara fram.

Um 200 flokksmenn Miðflokksins eiga sæti á landsþingi flokksins. Góð …
Um 200 flokksmenn Miðflokksins eiga sæti á landsþingi flokksins. Góð þátttaka var í kosningum til forystu hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru margir málaflokkar sem ég hef safnað punktum í. Ætli það verði ekki næst skipulagsmálin og þá ímynda ég mér að ég taki Reykjavík sérstaklega fyrir. Þetta er þó ekki gert sem sérstakur liður í stefnu flokksins í sveitarstjórnarmálum, heldur meira til þess að greina hvernig menn nálgast hlutina almennt,“ segir Sigmundur.

Standi við gefin loforð

Hann nefnir að þótt Miðflokkurinn hafi ekki sérstaka stefnu fyrir flokkinn í sveitarstjórnarmálum á landsvísu sé lagt upp með sömu hugsjón í öllum landshornum.

„Við höfum þá meginlínu að frambjóðendur okkar til sveitarstjórna fari inn í kosningarnar með skýr fyrirheit um það hvað þeir vilja gera. Síðan leggjum við upp með að þeir fylgi þessu eftir eftir kosningarnar í þeim skilningi að við ætlum ekki að fara í neitt meirihlutasamstarf nema þeir geti framkvæmt það sem þeir boða. Auðvitað þarf að miðla málum í öllum tilvikum, en í ákveðnum grundvallarprinsippum viljum við geta sagt kjósendum að við viljum ekki hverfa frá þeim þó loforðin séu ólík á hverjum stað,“ segir hann.


mbl.is