Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðismanna í borginni.
Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðismanna í borginni.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með ríflega 30 prósent fylgi í nýrri könnun sem Fréttablaðið og frettabladid.is hafa gert á meðal kjósenda í Reykjavík. Hann yrði stærsti flokkurinn í Reykjavík ef þetta yrðu niðurstöðurnar.

Samfylkingin fylgir fast á hæla honum með tæplega 26 prósent fylgi. Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn með tæplega 11 prósent fylgi. VG og Miðflokkurinn mælast svo með tæplega átta prósent fylgi og Viðreisn með rúmlega sjö prósent. Framsóknarflokkurinn mælist með 3,6 prósent fylgi.

Yrðu þetta niðurstöðurnar fengi Sjálfstæðisflokkurinn átta menn kjörna, Samfylkingin fengi sjö menn, Píratar, VG og Miðflokkurinn fengju tvo menn hver. Samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins gæti Viðreisn fengið tvo menn kjörna. Hins vegar er Framsóknarflokkurinn hársbreidd frá því að ná öðrum manninum af Viðreisn og yrði það þá eini maðurinn sem Framsóknarflokkurinn fengi kjörinn.

Með þessar niðurstöður er ljóst að þeir flokkar sem mynda meirihlutann í borgarstjórn og bjóða fram lista í vor, það er Samfylkingin, Píratar og VG, myndu fá ellefu menn kjörna af 23. Það þýðir að þeir myndu þurfa að fá fjórða flokkinn til liðs við sig til að ná meirihluta.

Hér er hægt að lesa nánar um niðurstöðu skoðanakönnunarinnar á vef Fréttablaðsins

mbl.is