Vilja gera sérstakan samning við kennara

Pawel Bartoszek og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir kynna stefnu Viðreisnar.
Pawel Bartoszek og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir kynna stefnu Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn ætlar að bregðast við flótta úr kennarastéttinni með því að gera sérstakan kjarasamning við kennara Reykjavíkurborgar. Þetta var meðal þess sem kom fram þegar stefna Viðreisnar í Reykjavík fyrir sveitastjórnarkosningar var kynnt í dag.

Flokkurinn leggur áherslu á að fjölbreytt dagvistunarúrræði standi börnum til boða þegar fæðingarorlofi lýkur. Opnun ungbarnadeilda verður sett í forgang og segir Viðreisn að það þurfi að hækka greiðslur til dagforeldra.

Alþingisfólkið Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru meðal gesta.
Alþingisfólkið Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru meðal gesta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flokkurinn vill að ný hverfi rísi við Elliðaárvog, í Ártúnshöfða og á Keldum og eiga þau að tengjast fyrsta áfanga Borgarlínu. Auk þess eigi að ljúka við uppbyggingu íbúðahverfis í Úlfarsárdal með þeim hætti að hverfið verði sjálfbært hvað varðar þjónustu auk þess sem ljúka þarf sem fyrst uppbyggingu skóla og íþróttamannvirkja í hverfinu. Áfram verður unnið að þéttingu byggðar innan borgarinnar.

Frá fundinum.
Frá fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn hvetur til orkuskipta í bílaflota til að mynda með áframhaldandi bílastæðafríðindum fyrir vistvæna bila. Flokkurinn vill bæta almenningssamgöngur og styður uppbyggingu Borgarlínu.

Nánar má sjá um stefnu Viðreisnar hér.

mbl.is