Meirihlutinn heldur naumlega velli

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meirihluti Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna heldur naumlega velli ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir Morgunblaðið dagana 23. til 25. apríl. Meirihlutaflokkarnir þrír mælast þar með um 47% fylgi og 12 borgarfulltrúa af 23.

Samfylkingin mælist jafnframt með mesta fylgið, 30,7% og átta borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn kemur þar á eftir með 27,3% og sjö borgarfulltrúa. Aðrir flokkar fá umtalsvert minna fylgi, en samkvæmt könnuninni myndu Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Miðflokkurinn og Píratar öll fá tvo borgarfulltrúa. VG mælist með um 9,7% fylgi, Miðflokkurinn fær 7,3% og Píratar fá 6,8%. Viðreisn og Flokkur fólksins fá síðan hvort um sig einn borgarfulltrúa, en fylgi Viðreisnar mælist 5,3% og Flokkur fólksins fær 3,6%.

Af öðrum flokkum í framboði er Framsóknarflokkurinn hlutskarpastur með 2,8%. Sósíalistaflokkurinn og Kvennaframboðið mælast bæði með um 1,8% og Höfuðborgarlistinn fær 1%. Alþýðufylkingin fær 0,8% og Íslenska þjóðfylkingin mælist með hálft prósent. Frelsisflokkurinn rekur svo lestina með 0,3% en 0,5% nefndu að þeir myndu kjósa annan flokk eða lista en þá sem í boði voru í könnuninni.

Þess má geta að litlu munaði að Sjálfstæðisflokkurinn næði inn áttunda borgarfulltrúanum í könnuninni á kostnað Pírata og felldi um leið meirihlutann. Líkt og fyrr sagði var könnunin unnin dagana 23.-25. apríl og náði hún til 3.700 þátttakenda. Alls svöruðu 1.777 úr þeim hópi og er svarhlutfall því 48%. Niðurstöðurnar voru vigtaðar eftir menntun og borgarhluta.

Flestir nefna Dag

Einnig var spurt hvaða einstakling kjósendur vildu helst sjá gegna embætti borgarstjóra að kosningunum loknum og svöruðu alls 980 þeirri spurningu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var þar oftast nefndur á nafn en 45,4% þeirra sem svöruðu könnuninni vildu fá hann sem borgarstjóra. Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, var nefndur af 29,4% og 8,8% svarenda vildu Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins, í embættið. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, fékk 4,4% stuðning en aðrir fengu minna.

Fylgi flokkanna í Reykjavík.
Fylgi flokkanna í Reykjavík.
mbl.is

Bloggað um fréttina