Sveitarfélögin megi markaðssetja lífsgæðin

Kristín Guðmunda Pétursdóttir rekur gistiheimilið Litlabýli á Flateyri.
Kristín Guðmunda Pétursdóttir rekur gistiheimilið Litlabýli á Flateyri. mbl.is/Eggert

„Mér finnst mikilvægast að við fáum jákvæðari umfjöllun út á við og sterkari innviði,“ segir Kristín Guðmunda Pétursdóttir, sem rekur gistiheimilið Litlabýli á Flateyri. „Svo er það náttúrlega atvinnulífið. Það þyrfti að vera áhugaverðara að koma hingað og vinna. En mér finnst núna vera fullt af verkefnum í gangi sem eru mjög heillandi.“

Nefnir Kristín þar fyrst Lýðháskólann á Flateyri, en þar verða fyrstu nemendurnir teknir inn í haust og einnig laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi, sem hafa verið í umræðunni um nokkurt skeið. „Það yrði rosa lyftistöng fyrir þessi bæjarfélög varðandi atvinnu. Þetta er svo keðjuverkandi, því ef það er vinna, þá er kannski sjoppa og lengri opnunartími á sundlaug. Þjónustan er meiri eftir því sem það er meira að gerast,“ segir Kristín.

Hún segir þó að það þurfi kannski ekki að setja öll eggin í sömu körfuna, þegar fjallað er um atvinnuuppbyggingu á svæðinu til framtíðar.

Vill gera meira út á lífsgæðin

Kristín Guðmunda er Flateyringur í húð og hár og vill hvergi annars staðar vera. Henni finnst sveitarfélögin á Vestfjörðum mega gera meira í því að markaðssetja þau lífsgæði sem felist í því að búa þar.

„Ég held að það meiri gera aðeins meira út á þau. Þú hefur einhvernveginn meiri tíma, það er allt innan þessa hálftíma ramma, hvort sem þú ert að fara á Þingeyri, Suðureyri, Ísafjörð, Bolungarvík eða Súðavík. Þetta er allt innan hálftíma,“ segir Kristín og bætir við að á Vestfjörðum lendi maður ekki í umferðarteppum eins og í borginni, þó að ófærð yfir vetrartímann sé að sjálfsögðu fylgifiskur þess að búa á snjóþungu svæði.

„En bara þessi lífsgæði, að geta labbað með barninu í skólann en samt átt alveg hálftíma til að hitta vini í kaffi. Þú getur bara droppað inn, þarft ekki að panta tíma eða keyra í klukkutíma og svo drífa þig heim að elda. Ég tel að við megum gera meira út á þessi lífsgæði og auðvitað ódýrt húsnæði,“ segir Kristín.

Mikilvægt að smærri bæirnir eigi fulltrúa í sveitarstjórn

Sveitarfélagið Ísafjarðarbær varð til árið 1996 með sameiningu sex sveitarfélaga í eitt. Kristín telur mikilvægt að minni byggðarlögin, Flateyri, Þingeyri og Suðureyri eigi sér allavega einn fulltrúa hvert í sveitarstjórn.

„Ég held að mörgum finnist við skilin dálítið útundan, en ég held að við þurfum bara að vinna betur saman. Ég veit ekki hvernig það hefði verið ef að Flateyrarhreppur væri ennþá til, það væri örugglega erfitt fyrir bæjarfélagið, að halda úti leikskóla og öllu þessu,“ segir Kristín.

Hún ber skólamálunum á Flateyri vel söguna, en þar var þó áformum um að sameina grunnskóla- og leikskóla undir sama þak mótmælt af íbúum í fyrra. Mjög mikið hitamál. En margt hefur breyst síðan þá og skólarnir ekki felldir undir sama þak.

„Í fyrra, þegar það átti að fara að sameina þetta allt saman, þá voru fimm krakkar á leikskóla, en núna eru þau sautján. Þetta er rosalega fljótt að breytast, en svo náttúrlega getur það breyst á hinn veginn líka. En ég vona náttúrlega ekki, við erum að sjá ungt fólk koma til baka.“

Grunnskólamálin á Flateyri eru í góðum farvegi, að mati Kristínar. „Eldri krakkarnir fara á Ísafjörð í val ef þau vilja og það er líka opið fyrir þau að fara á Ísafjörð í skóla ef þau vilja. Mér finnst alveg rosalega mikilvægt að fyrstu bekkirnir séu hér og það sé ekki verið að fara með þau á milli, en mér finnst alveg að eldri bekkirnir megi fara, bara upp á að komast inn í annan vinahóp. Það kannski heldur þeim frekar á svæðinu ef þau þekkja fleiri í nágrenninu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert