Vegamál og viðhald veigamikið á Vesturlandi

Páll S. Brynjarsson, Borgarnesi „Þegar kreppti að eftir 2008 þá ...
Páll S. Brynjarsson, Borgarnesi „Þegar kreppti að eftir 2008 þá spöruðu menn viðhald, hvort sem það var á húsnæði eða á götum og gangstéttum. Það eru mjög stór verkefni fram undan í þessum málum víða, til að mynda á Akranesi, í Borgarnesi og úti á Snæfellsnesi. “ mbl.is/​Hari

Stóru sameiginlegu málin sem brenna á íbúum á Vesturlandi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga snúa að samgöngum og viðhaldsframkvæmdum. Þá má búast við því að umræða um öldrunarþjónustu verði áberandi á næstunni. Þetta er niðurstaða yfirreiðar Morgunblaðsins um svæðið nýlega og samtala við íbúa.

Páll S. Brynjarsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, segir að þótt vegir landsins séu á forræði ríkisins muni þeir verða kosningamál nú. „Samgöngumálin brenna á öllum Vestlendingum. Þar má til dæmis nefna umræðuna um Vesturlandsveg milli Akraness og Reykjavíkur, sá kafli skiptir okkur gríðarlega miklu máli.“

Anna Lára Steinsen. „Ég held að það ætti að veðja ...
Anna Lára Steinsen. „Ég held að það ætti að veðja á eitthvað annað en bara stórfyrirtæki,nýta sementsreitinn til að fá fleira ungt fólk í bæinn og byggja upp.“ mbl.is/Eggert

Undir þetta tekur Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, sem keyrir daglega milli Akraness og Reykjavíkur. „Ég hef keyrt í mörg ár þarna á milli og vegurinn hefur versnað mjög hratt að undanförnu. Ég hugsa með hryllingi til þess að þurfa að keyra annan vetur þarna. Bæjarstjórnin hefur tekið góða afstöðu með íbúum og það er loksins eitthvað að gerast. En það eru hundruð sem keyra þarna á milli dag hvern og gríðarmiklir hagsmunir undir. Það má ekki gleyma því að þarna er líka ungt fólk sem sækir nám til Reykjavíkur. Það eru minnst þjálfuðu ökumennirnir.“

Stórar vegaframkvæmdir

Páll segir að fleiri stór verkefni er snúi að vegaframkvæmdum skipti íbúa á svæðinu miklu. „Íbúar hér á Borgarfjarðarsvæðinu eru mikið að horfa á Uxahryggi sem verða ný tenging á milli Suðurlands og Vesturlands. Þessi framkvæmd er í gangi en gengur bara afar hægt.

Stykkishólmur. Ferðamenn sækja í auknum mæli á Vesturland og voru ...
Stykkishólmur. Ferðamenn sækja í auknum mæli á Vesturland og voru yfir900 þúsund í fyrra. Tækifæri eru til að styrkja ímynd svæðisins enn freka mbl.is/​Hari

Ef þú ferð út á Snæfellsnes blasir við að það er búið að standa lengi til að klára Fróðárheiðina en svo er það vegurinn um Skógarströnd. Hann er tenging milli Snæfellsness og Dalanna. Um leið og þú ert kominn með þann veg góðan þá ertu búinn að beina ferðaþjónustunni inn í Dalabyggð. Það er svæði sem gæti tekið við fleiri og hefði gott af því að fá fleiri ferðamenn.

Á þessu svæði skipta þessir svokölluðu tengivegir gríðarlegu máli. Þar sem þú ert með öflugar sveitir skiptir máli að þessir vegir séu í lagi. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að það eru ekki nema rétt um 40 prósent vega á Vesturlandi sem eru með bundnu slitlagi. Hér er því heilmikið ógert við að leggja malbik.“

Styrkja þarf ímynd héraðsins

Fjölgun ferðamanna hefur skilað sér á Vesturlandi eins og víðast hvar annars staðar. Segir Páll að mikil tækifæri séu fyrir hendi, einkum og sér í lagi ef samgöngur verði bættar. Ríflega 900 þúsund ferðamenn fóru um Vesturland í fyrra og var það fjölgun upp á yfir 100 þúsund ferðamenn milli ára.

„Það er að verða til mjög öflug atvinnugrein, ferðamennskan, á Vesturlandi. Hún hefur fyrst og fremst byggst upp á Snæfellsnesi og hérna á Borgarfjarðarsvæðinu en það eru tækifæri víðar,“ segir Páll.

Þau Bryndís Geirsdóttir og Guðni Páll Sæmundsson í Árdal telja að kosningarnar sem eru fram undan og næsta kjörtímabil séu spennandi í þessu tilliti.

„Íbúum fjölgar hratt og það á stækka hótelin enn frekar. Það er ekki til húsnæði fyrir allt þetta fólk og það þarf að finna lausn á því. Svo þarf að hugsa um hvernig landbúnaðurinn, þekkingarsamfélagið og ferðaþjónustan getur stutt hvað annað. Það eflir samfélagið til frambúðar. Ef ferðamennskan stendur ein og sér þá er allt svo brothætt – ef hún snýst bara um að skoða fjöll og fossa þá eru þetta bara rútur sem fara á áfangastað og til baka, eins og verið hefur síðustu 30 ár. En ef hugsað er langs tíma þá væri gáfulegast að nýta grundvallaratvinnuvegina til að styrkja ímynd héraðsins sem matar- og menningarhéraðs,“ segja þau. 

Stórar áskoranir á Akranesi

Páll segir að íbúar á Vesturlandi séu að eldast, rétt eins og annars staðar. Því verði öldrunarþjónusta áberandi umræðuefni í komandi kosningum og á næstu misserum. „Menn munu berjast fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og fleira til að geta sinnt öldruðum betur en í dag. Ég held að þetta eigi við um allt Vesturland.“

Stórar ákvarðanir eru fram undan á Akranesi varðandi framtíð-aruppbyggingu á ...
Stórar ákvarðanir eru fram undan á Akranesi varðandi framtíð-aruppbyggingu á sementsreitnum. Mikil uppbygging er fyrir höndum mbl.is/​Hari

Hann segir jafnframt að vegaframkvæmdir muni teygja sig inn á borð sveitarfélaga. „Ég tel að í mörgum sveitarfélögum verði umræða um endurbætur og lagfæringar. Þegar kreppti að eftir 2008 spöruðu menn viðhald, hvort sem það var á húsnæði eða á götum og gangstéttum. Það eru mjög stór verkefni fram undan í þessum málum víða, til að mynda á Akranesi, í Borgarnesi og úti á Snæfellsnesi. Við finnum að það er mikil umræða um þetta,“ segir Páll. Hann segir jafnframt að fjárhagsstaða sveitarfélaga á Vesturlandi sé almennt mjög góð.

Anna Lára Steindal segir að atvinnumál og framtíðaruppbygging sé ofarlega í huga íbúa á Akranesi.

„Margir hafa áhyggjur af því að það eigi að setja öll eggin í sömu körfuna og veðja áfram á stórfyrirtæki í iðnaði. Stóra spurningin er hvort við ætlum að ýta undir meiri fjölbreytileika hér og búa til fleiri tækifæri. Akranes hefur þann stórkostlega eiginleika að vera þorp nánast í útjaðri borgarinnar. Við erum fljótari að keyra til Reykjavíkur en fólk er að keyra á milli hverfa í mörgum borgum en um leið höfum við allt sem þorpslífið hefur að bjóða. Það eru stórar ákvarðanir fram undan varðandi uppbyggingu á sementsreitnum og frekari landfyllingu. Fólk er klofið í afstöðu sinni. Ég held að það ætti að veðja á eitthvað annað en bara stórfyriræki, nýta sementsreitinn til að fá fleira ungt fólk í bæinn og byggja upp.“

mbl.is