Ellefu framboð skiluðu inn listum

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Ellefu framboð skiluðu inn framboðslistum þegar yfirkjörstjórn Reykjavíkur hóf móttöku sína á listum til borgarstjórnarkosninga í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Framboðin sem um ræðir eru Íslenska þjóðfylkingin, Alþýðufylkingin, Samfylkingin, Höfuðborgarlistinn, Sósíalistaflokkur Íslands, Vinstri græn, Viðreisn, Frelsisflokkurinn, Miðflokkurinn, Kvennahreyfingin og Píratar.

Einnig verður tekið við framboðslistum á morgun milli klukkan 10 og 12 í Ráðhúsinu, að því er kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Þegar frestur rennur út mun yfirkjörstjórn fara yfir alla lista og kanna hvort þeir uppfylli öll skilyrði. Að því loknu verður úrskurðað um gildi framboðslistanna og kjörgengi frambjóðenda.

Meðan kosning fer fram, laugardaginn 26. maí, verður aðsetur yfirkjörstjórnar Reykjavíkur í Ráðhúsi Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert