Austurland myndi sterka heild

Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir vill að Reyðfirðingar fái húsnæði undir menningarstarf. ...
Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir vill að Reyðfirðingar fái húsnæði undir menningarstarf. Það gæti rifið fólk upp úr sófanum. mbl.is/Eggert

Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir skemmtikraftur á Reyðarfirði hitti blaðamann mbl.is á dögunum og fór yfir það sem henni þykir mikilvægast í sínu sveitarfélagi. Hún leggur m.a. áherslu á fjölskyldu- og velferðarmál, menningarmál og atvinnumál fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Ég er hérna með þrjú börn og er í þessari stöðu að vera með börn bæði í grunn- og leikskóla og því skiptir það mig máli að það séu góðir skólar hérna. Þeir eru það, en það er alltaf sóknarfæri að bæta sig. Bæði grunnskólinn og leikskólinn eru að springa, það þarf að stækka þá,“ segir Jóhanna.

Hún myndi gjarnan vilja sjá fjölnota íþróttahús rísa á Reyðarfirði. „Það er hérna fótboltahöll en maður myndi gjarnan vilja sjá íþróttum öðrum en fótbolta gert hærra undir höfði.“

Henni finnst vanta fjölbreyttari störf á Reyðarfirði. „Við erum með þennan flotta vinnustað, Alcoa-Fjarðaál. Það eru margir heimamenn sem vinna þar og fólk kemur líka og flyst hingað til að vinna þar, en stundum er það bara annar aðilinn í sambandi sem vinnur þar og þetta er vaktavinna að miklu leyti. Þá vantar kannski starf fyrir hinn aðilann og það virðist halla þarna aðeins á konur, því það vinna nú fleiri karlar úti í álveri. Mér finnst vanta fleiri störf hérna og það væri gaman að sjá einhverja nýsköpun í þá áttina,“ segir Jóhanna.

Menningarhús gæti rifið Reyðfirðinga upp úr sófanum

Jóhanna hefur mikinn áhuga á tónlist og sviðslistum af öllu tagi. Að hennar mati vantar vettvang fyrir listir á Reyðarfirði. „Mér þætti ofboðslega gaman að sjá einhvers konar menningarhús hérna á Reyðarfirði sem gæti kannski rifið Reyðfirðinga svolítið upp úr sófanum og fengið þá til að taka þátt í menningarviðburðum hérna, að það væri einhver staður sem fólk gæti komið saman á.“

Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði er frábært safn að mati Jóhönnu, en hún vill sjá Fjarðabyggð gera meira úr safninu og öðrum söfnum í sveitarfélaginu.

„Ég myndi vilja sjá eitthvað um að vera uppi á Stríðsminjasafni allt sumarið, ekki að það sé bara seldur aðgangur og fólk labbi um og skoði, heldur að þetta sé lifandi safn,“ segir Jóhanna og bætir við að það sé eitthvað sem hún væri til í að taka þátt í og fá aðra með sér í.

Vill fleiri sameiningar á Austurlandi

„Það er rosalega gott að vera með börn hérna og mér finnst bara að mörgu leyti mjög gott að búa hérna og er mjög ánægð. Ég ætlaði að vera hérna í tvö, þrjú ár, en núna í júlí er ég búin að vera í tíu,“ segir Jóhanna. „Það er gott að búa í Fjarðabyggð, en það getur verið enn þá betra.“

Fjarðabyggð verður eftir kosningar um það bil 5.000 manna sveitarfélag, sem inniheldur sex þéttbýliskjarna, misjafna að stærð og á stóru svæði. Telur Jóhanna að allir íbúar nái að láta rödd sína heyrast í málefnum sveitarfélagsins?

„Ég vona að fólk á fjörðunum hérna í kring upplifi það að þau geti haft áhrif og eitthvað um hlutina að segja í því samfélagi sem það borgar sitt útsvar til og býr í og tekur þátt í að mynda. Við erum öll samfélag. Ég vona svo sannarlega að fólk upplifi það, ég hef ekki heyrt að fólk upplifi að það geti alls ekki haft áhrif en ég veit að suma myndi langa að hafa meiri áhrif,“ segir Jóhanna.

Hún er hlynnt frekari sameiningum sveitarfélaga á Austurlandi.

„Nú er Breiðdalsvík orðin hluti af Fjarðabyggð og ég myndi bara vilja sjá þetta tekið enn þá lengra. Meiri sameining þýðir bara öflugra sveitarfélag og meiri heild. Þó að við séum sitt hver fjörðurinn og víkurnar og vogirnir hérna, þá erum við samt Austurland og við eigum að mynda sterka og öfluga heild.“

Rætt er við fleiri íbúa á Austurlandi um þau mál sem á þeim brenna fyrir sveitarstjórnarkosningar í Morgunblaðinu og hér á mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina