Vilja auka lýðræðisþátttökuna

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Borgarráð samþykkti að fara í ákveðna aðgerð í mars til þess að reyna að auka kosningaþátttöku á grundvelli skýrslu sem unnin var og skilað inn til ráðsins. Þar var fyrst og fremst verið að horfa til hópa sem kjósa síður en aðrir. Einkum unga kjósendur, innflytjendur og konur 80 ára og eldri sem virðast hætta einhverra hluta vegna að taka þátt í kosningum.“

Þetta segir Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is spurð út í áform borgarinnar um að senda skilboð til ungra kjósenda í þeim tilgangi að auka kjörsókn í borgarstjórnarkosningunum síðar í þessum mánuði. Umsókn um undanþágu frá ákvæðum í persónuverndarlögum vegna þeirra er til afgreiðslur hjá Persónuvernd.

Hugmyndin er að senda bréf til ungra kjósenda þar sem þeim verði bent á það hvenær kjördagur er og hvar þeirra kjörstaður er og í framhaldi af því sms-skilaboð. Síðan verði rannsókn unnin í kjölfarið af félagsvísindasviði Háskóla Íslands á því hvort skilaboð til umræddra kjósenda hafi haft áhrif. Byggt verður í þeim efnum á erlendum rannsóknum. 

Upplýsingarnar ekki persónugreinanlegar

„Þarna er fyrst og fremst verið að reyna að auka lýðræðisþátttökuna. Við hins vegar þurfum eins og aðrir að fara í gegnum þessi hefðbundnu ferli. Við byrjuðum á að vísa málinu til yfirkjörstjórnar og fengum í framhaldinu leiðbeiningar um það hvert við ættum að fara. Það er alveg ljóst að ekki verður farið í neinar sms-sendingar nema tilskilin leyfi fáist til þess.“

Þær upplýsingar sem fáist úr kjörgögnum verði ekki persónugreinanlegar. Fundað hafi verið með Hagstofunni til þess að tryggja að svo verði ekki og tekið verði mið af reglum hennar. „Við erum mjög meðvituð um að við erum þarna á þannig svæði að sérstaklega mikilvægt er að gera þetta allt saman eins og lög og reglur gera ráð fyrir.“

Spurð hvort upplýsingar um framboð verði í skilaboðunum til umræddra kjósenda fáist leyfi fyrir þeim segir hún svo ekki vera. Hins vegar sé hugmyndin að benda á vefinn Egkys.is, sem er verkefni á vegum Landssambands ungmennafélaga og Sambands íslenskra framhaldsskólanema, þar sem verið sé að safna upplýsingum um framboðin.

„Síðan verðum við með beina tengingu inn á vefinn Kosning.is þar sem nálgast má upplýsingar um það hvort fólk sé á kjörskrá og hvar það megi kjósa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert