„Munum selja okkur dýrt“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Golli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segja bæði að skýrt sé að flokkarnir ætli sér í breytingar í borginni komist þau þar til valda eftir sveitarstjórnarkosningarnar. Ekki verði farið í meirihlutaviðræður aðeins til að komast í stjórn. Þetta kom fram í þættinum Víglínunni á Vísi í dag.

Sagði Þorgerður ljóst að báðir flokkarnir væru í framboði til að fara í breytingar og vísaði til tíma Viðreisnar í ríkisstjórn. Sagði Sigmundur þá að hann vonaðist til þess að Viðreisn myndi ekki renna beint inn í núverandi meirihluta í borginni og sagði Þorgerður að þau myndu berjast fyrir sínum málum. „Við munum selja okkur dýrt.“  Tók Sigmundur undir og sagði að ekki ætti að fara í meirihluta bara til að fara í meirihluta.

Þorgerður ítrekaði meðal annars loforð flokksins um að berjast fyrir því að hækka laun kennara og setja áherslu á menntun. Sagði hún að fjármagna ætti 100 þúsund króna hækkun kennaralauna með gistináttagjaldi sem eigi að færast frá ríki til sveitarfélaga.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Golli

Sigmundur gagnrýndi staðarval nýs Landspítala við Hringbraut, en hann hefur verið ötull talsmaður þess að nýr spítali eigi að vera staðsettur á öðrum stað. Sagði hann að fólk vildi ekki breyta um ákvörðun þótt það væri skynsamlegt því það hefði svo mikið púður farið í núverandi staðsetningu. Þá gagnrýndi hann einnig borgarlínuna og sagði líkindi með henni og spítalanum. Búið sé að ákveða þetta og málið komið svo langt áfram í kerfinu að enginn vilji snúa við þótt niðurstaðan sé ekki skynsamleg. Sagði hann borgarlínuna rándýrt tvöfalt kerfi sem muni kosta borgarbúa háar fjárhæðir langt fram í tímann.

Þorgerður var hins vegar ekki sammála þessu og sagði að alltaf væri kastað reyksprengjum þegar kæmi að umræðum um borgarlínu. Sagði hún að borgarlína væri lífsgæði sem myndi trekkja að íbúa og ekki síst fólk sem hefði flust í burtu og kynnst stórborgarlífi í öðrum löndum. Sagði hún Viðreisn ekki ætla að vera á móti góðum hugmyndum bara til að vera á móti þeim og talaði gegn pólamyndun sem hefði verið lengi bæði í landsmálum og í sveitarstjórnum. Varðandi spítala við Hringbraut sagði Þorgerður hins vegar að þó að hún hefði upphaflega verið mótfallin því að nýr spítali kæmi við Hringbraut þá væri nú of seint að snúa við.

mbl.is

Bloggað um fréttina