Vill afturkalla lóð undir mosku

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi og oddviti framboðsins Borgin okkar …
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi og oddviti framboðsins Borgin okkar Reykjavík.

„Ég tel því að forsendur fyrir lóðarúthlutuninni séu brostnar. Ég legg því til að borgarstjórn fylgi eftir þeirri stefnu sem viðhöfð hefur verið um að framkvæmdir af þessum toga verði að hefjast innan þriggja ára ella sé lóðarúthlutunin afturkölluð,“ segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi og oddviti framboðsins Borgin okkar Reykjavík, í greinargerð með tillögu sem hún hefur lagt fram um afturköllun á úthlutun lóðar til Félags múslima á Íslandi undir mosku að Suðurlandsbraut 76 í Reykjavík. Tillagan verður til umræðu á fundi borgarstjórnar á morgun.

„Lög um Kristnisjóð gera aðeins ráð fyrir að sveitarfélög úthluti ókeypis lóðum undir kirkjur Þjóðkirkjunnar. Reykjavíkurborg var því óskylt og reyndar óheimilt að gefa lóðina. Fulltrúar meiri hlutans í borgarráði vísuðu hins vegar til þess að ekki mætti mismuna trúfélögum. Öll trúfélög yrðu að sitja við sama borð. Komið hefur í ljós að það voru aðeins hentistefnurök því meiri hlutinn hefur nú hafnað því að Hjálpræðisherinn fái sömu undanþágu frá sköttum og gjöldum og Félag múslima á Íslandi,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Telur lóða- og framkvæmdaskilmála brotna

Sveinbjörg segir ljóst að engin moska verði byggð á lóðinni án erlends fjármagns en eins sé ljóst að borgaryfirvöld hafi ekki áhuga á að slík bygging verði reist fyrir slíkt fjármagn enda fylgi því jafnan skilyrði. Vísað er til þess að settar hafi verið reglur í nágrannalöndum íslands til þess að koma í veg fyrir að erlent fjármagn, meðal annars frá Sádí-Arabíu, sé notað til þess að byggja moskur. Ennfremur hafi verið gripið til aðgerða til þess að takmarka áhrif þess ríkis á stjórn moska. Engin slík áform séu hjá íslenskum stjórnvöldum.

Fyrir vikið sé eina leiðin að afturkalla lóðina sem Sveinbjörg segir þess utan hafa verið ólögmæta með vísan í lög um Kristnisjóð. Ennfremur hafi engar framkvæmdir verið hafnar á lóðinni þrátt fyrir að tæplega fimm ár séu liðin frá úthlutun hennar en samkvæmt almennum lóða- og framkvæmdaskilmálum, sem meðal annars gildi um lóðir til trúfélaga, þurfi undirstöður og plata að hafa verið steypt innan þriggja ára, húsið orðið fokhelt innan fjögurra ára, það fullfrágengið að utan innan fimm ára og yfirborð lóðar og frágangi við lóðamörk lokið innan sex ára. Ljóst sé að þessi skilyrði hafi ekki verið uppfyllt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert