Upplýsingar sem bendi til mistaka

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar – Reykjavíkur.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar – Reykjavíkur.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar – Reykjavíkur, lagði á borgarstjórnarfundi í dag fram tillögu um að Reykjavíkurborg afturkalli ákvörðun um að úthluta Félagi múslima á Íslandi lóð undir mosku í Sogamýri.

Tillagan var meðal annars rökstudd með vísan til þess að framkvæmdafrestir samkvæmt almennum framkvæmda- og lóðaskilmálum borgarinnar væru liðnir. Fimm ár eru liðin síðan Reykjavíkurborg úthlutaði lóðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sveinbjörgu.

Í fyrirspurn sem hún sendi Degi B. Eggertssyni borgarstjóra kemur fram að í umræðu um tillöguna í borgarstjórn hafi komið fram nýjar upplýsingar frá Degi sem bendi til þess að mistök hafi átt sér stað í stjórnsýslu borgarinnar í málinu.

„Kvað borgarstjóri Reykjavíkurborg aldrei hafa sent tilkynningu til lóðarhafans um að lóðin væri orðin byggingarhæf. Með vísan til þessa kvað borgarstjóri tímafrestina í skilmálum borgarinnar ekki byrjaða að líða,“ segir í fyrirspurninni, þar sem hún óskar eftir svörum við nokkrum spurningum í tengslum við málið.

Sveinbjörg segir að séu upplýsingar borgarstjóra réttar hafi verið gerð mistök í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem borgarstjóri beri ábyrgð á.

mbl.is