100 ára í framboði

Guðrún Glúmsdóttir er 100 ára og í framboði.
Guðrún Glúmsdóttir er 100 ára og í framboði.

Elsti frambjóðandi landsins er líklega Guðrún Glúmsdóttir en hún fagnaði 100 ára afmæli fyrir tæpum mánuði síðan. Guðrún býður sig fram í 14. sæti Ð-lista Framtíðarinnar í Þingeyjarsveit en hún er búsett að Hólum í Reykjadal.

Guðrún segist alltaf hafa haft nokkurn áhuga á stjórnmálum þó hún hafi lítið tekið þátt í þeim sjálf. Aðspurð hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að taka sæti á lista segir Guðrún: „Það var ekkert sérstakt. Þeim fannst svo ágætt að hafa mig þarna í heiðurssætinu. Mér var alveg sama.“

Þrátt fyrir það segir Guðrún að það sé ýmislegt sem á henni brennur. „Maður er nú mikið að hugsa þegar maður er orðinn svona gamall. Ég er nú helst að vona að allt sé sem best á landinu bara, og að fólk sé hraust,“ segir Guðrún.

Jóna Björg Hlöðversdóttir, oddviti Ð-listans í Þingeyjarsveit, segir að nafn Guðrúnar hafi komið snemma upp þegar rætt var um hvern ætti að skipa í heiðurssætið. „Hún var auðvitað nýbúin að fagna hundrað ára afmæli en svo hefur hún líka skoðanir á samfélaginu,“ segir Jóna og bætir við að Guðrún hafi verið hæstánægð með að hafa verið boðið sæti á lista. Aðspurð hvort hár aldur Guðrúnar hafi haft áhrif á það að henni var boðið sæti á lista Framtíðarinnar segir Jóna: „Okkur fannst þetta bara viðeigandi. Við erum líka með frambjóðanda sem er nýorðinn átján ára svo við vildum hafa lista sem er lýsandi fyrir samfélagið“. Jafnframt segir Jóna að hún hafi einungis fengið jákvæð viðbrögð frá fólkinu í kringum sig við því að Guðrún hafi fengið sæti á lista.

Guðrún hefur alla ævi búið í Reykjadal í Þingeyjarsveit en aðspurð hvernig það hafi verið að alast þar upp segir hún: „Ég ólst upp við mikið frjálsræði. Það voru ekki miklar hömlur á unglingum og ungu fólki á þessum tíma. Ég borðaði mikið af fiski, gulrófum, mjólk og súru slátri. Það er svo gott!“

Guðrún fékk litla menntun en segist þó hafa fengið að fara í farskóla öðru hverju. „Það var ekki mikið kennt í barnaskóla þegar ég var krakki. Annað slagið var eitthvað kennt á bæjum. Nú læra allir og eru nánast alla ævina í skóla“ segir Guðrún og bætir hlæjandi við: „En þrátt fyrir það finnst mér fólk ekkert betur að sér í mörgum hlutum.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »