Sjö flokkar næðu inn manni

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hari

Meirihlutinn í borginni heldur velli samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Samfylkingin bætir við sig fylgi og manni frá síðustu könnun blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist undir kjörfylgi síðustu kosninga og fylgi Vinstri grænna heldur áfram að dala.

Samkvæmt könnuninni næðu sjö framboð af sextán, sem bjóða fram, manni inn. 

Samfylkingin mælist stærst og með 31,2% fylgi í könnuninni og níu borgarfulltrúa. Þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 24,8% fylgi og sjö borgarfulltrúa og Píratar með 11,5% fylgi og þrjá borgarfulltrúa. 

Fjórir flokkar til viðbótar myndu ná inn einum manni samkvæmt könnuninni. VG með 6,7%, Viðreisn með 6,6%, Miðflokkurinn með 4,2% og Sósíalistaflokkurinn með 3,8%.

Könnunin var gerð dagana 2.-14. maí og ítarlega er fjallað um hana í Viðskiptablaðinu í dag. 

mbl.is