Tennishöllin stækkar

Jónas Páll Björnsson framkvæmdastjóri
Jónas Páll Björnsson framkvæmdastjóri mbl.is/Valgarður Gíslason

Fyrr í mánuðinum var fyrsta skóflustungan tekin að endurbættri tennishöll Kópavogsbúa, þeirri einu á landinu. Fyrir eru í höllinni þrír vellir en í viðbyggingunni verða tveir til viðbótar, auk tveggja minni padel-valla, en padel er íþrótt sem lýsa má sem nokkurs konar blöndu af tennis og skvassi, að sögn Jónasar Páls Björnssonar, framkvæmdastjóra Tennishallarinnar. Þá verður félagsaðstaðan bætt til muna og svæði undir hana fjórfaldað, með það að markmiði að skapa nokkurs konar klúbbstemningu.

Fimm ára aðdragandi

Tennishöllin var fyrst opnuð vorið 2007 en fyrir það hafði tennisiðkun verið í næsta húsi þar sem nú er Sporthúsið. Höllin hefur síðan notið mikilla vinsælda og segir Jónas að fyrir um fimm árum hafi orðið ljóst að núverandi húsnæði rúmaði ekki starfsemina. Spurn eftir völlum væri meiri en framboð og oft erfitt að finna lausan tíma. Stækkunin var ekki óumdeild, en hún var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs árið 2016 með sex atkvæðum gegn fimm og féllu þau þvert á flokkslínur.

Tennishöllin er til húsa í botni Kópavogsdals í lítilli gryfju og sést varla frá götunni. Andstæðingar stækkunarinnar vilja láta Kópavogsdalinn óáreittan en hann er eitt helsta útivistarsvæði Kópavogsbúa og skilgreint sem opið svæði samkvæmt aðalskipulagi. Jónas segir þó flesta sátta við útkomuna.

„Það voru einhverjir í pólitíkinni sem höfðu eitthvað á móti þessu, en mér heyrist að þeir hafi flestir komið að málinu í lokaafgreiðslunni.“ Útfærsla stækkunarinnar sé látlaus og viðbyggingin komi á svæði sem nú er bílastæði. Framhlið nýju byggingarinnar er úr gleri en trjám verður plantað við austurhlið hússins, sem auk þess er niðurgrafið. Stefnt er að því að nýju vellirnir verði teknir í notkun síðar á árinu en að framkvæmdum ljúki endanlega á næsta ári.

Ekki síst forvörn fyrir fullorðna

„Í mínum huga er þessi stækkun lýðheilsumál,“ segir Jónas. Verið sé að byggja upp starfsemi sem fólk sæki í skemmtunarinnar vegna, en fái heilsubót í bónus. „Maður er ekki að pína sig í tennis. Maður er bara að leika sér, en tekur vel á því.“ Jónas segir mikið rætt um gildi íþrótta sem forvörn fyrir börn, en oft vilji gleymast að íþróttir fullorðinna séu alveg einnig mikilvægar og tennis sé frábær íþrótt að því leyti að hana megi stunda alla ævi. „Ég held að bæjarstjórnin átti sig á að þetta sé stórt lýðheilsumál.“

Þrír vellir í fullri stærð eru í Tennishöllinni.
Þrír vellir í fullri stærð eru í Tennishöllinni. mbl.is/Valli
mbl.is