Boða átak í uppsetningu hleðslustöðva

Oddvitar VG á höfuðborgarsvæðinu kynntu áherslur sínar í umhverfismálum á …
Oddvitar VG á höfuðborgarsvæðinu kynntu áherslur sínar í umhverfismálum á blaðamannafundi í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í dag. mbl.is/Valli

„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga í samstarfi við ríkið að ráðast í átak í uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla við opinberar byggingar og bílastæði í almenningseigu. Jafnframt eiga sveitarfélögin að veita íbúum aðstoð og stuðning við að koma upp hleðsluaðstöðu við heimili sín.“ Þetta sagði Líf Magneudóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, á blaðamannafundi flokksins í dag.

„Við söknum þess að umhverfismál séu í umræðunni.“ Oddvitar Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu kynntu áherslur sínar í umhverfismálum á blaðamannafundi í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í dag. Þeir boða meðal annars átak í uppbyggingu hleðslustöðva, að sveitarfélögin sniðgangi plast eins og hægt er og valfrelsi í samgöngum.

Ekki þörf fyrir alla olíutankana í Örfirisey

„Árangursríkasta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er að ráðast í orkuskipti í samgöngum. Það er mikill áhugi hjá almenningi að fara í orkuskipti en lítið aðgengi að hleðslu hindrar þá í því. Þar geta sveitarfélögin lagt sitt að mörkum.“

Olíutankarnir í Örfirisey.
Olíutankarnir í Örfirisey. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í máli sínu sagði Líf einnig ljóst að þegar Íslenska þjóðin myndi skipta yfir í vistvænt eldsneyti yrðu olíutankarnir á Örfirisey óþarfir. „Framtíðin er sú að einn daginn hljótum við að geta takmarkað olíunotkun þannig að þeir fari. Við þurfum að búa því þannig í haginn.“ Líf sagði VG þó hlynnt aðalskipulagi, en í því er gert ráð fyrir tönkunum til 2030. 

Plastmengun stærsta umhverfisvandamál samtímans

Margrét Júlía Ragnarsdóttir, oddviti VG í Kópavogi, sagði sveitarfélögin eiga að sniðganga plast og einnota hluti eins og kostur er og beita sér fyrir því í innkaupastefnu sinni. „Plastmengun og sóun er eitt stærsta umhverfisvandamál samtímans og þess vegna verða sveitarfélögin að grípa til aðgerða og stuðla að meiri og betri endurvinnslu, hjá heimilum og fyrirtækjum, þar sem markmiðið er að allir geti flokkað sorp til endurvinnslu.“

Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, oddviti VG í Hafnarfirði sagðist vilja að fólk kæmist alla leið í vinnu í Reykjavík og til baka á hjólastígum og lagði áherslu á uppbyggingu þeirra. „Við viljum betri almenningssamgöngur til að draga úr mengun og gera fjölskyldum mögulegt að eiga færri bíla. Með Borgarlínunni og áframhaldandi uppbyggingu hjólreiðastíga á öllu höfuðborgarsvæðinu tryggjum við aukið valfrelsi í samgöngum og drögum úr bílaumferð.“

Mörg tækifæri til að ná árangri

„Hér gengur ekkert annað en að vinna saman þvert á hreppamörk,“ sagði Bjarki Bjarnason, oddviti VG í Mosfellsbæ. „Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga að móta sameiginlega aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Hér búa næstum tveir þriðju hlutar landsmanna og því bera sveitarfélögin mikla ábyrgð þegar kemur að loftslagsmálum en hafa að sama skapi mörg tækifæri til að ná árangri í þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert