Mosfellsbær hefur haldið sérkennum sínum sem sveit í borg

Salóme Þorkelsdóttir hefur búið í Mosfellsbæ í 70 ár.
Salóme Þorkelsdóttir hefur búið í Mosfellsbæ í 70 ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Salome Þorkelsdóttir man tímana tvenna úr Mosfellsdalnum. Hún er meðal frumbyggja bæjarins. Fædd í Reykjavík en fluttist í Mosfellsdalinn árið 1948, þá 21 árs og nýgift. Á þeim tíma bjuggu um 600 manns í Mosfellssveit.

Sveit í bæ

„Þetta var dreifbýlisbær og hér þekktu allir alla,“ segir Salome. Helstu atvinnuvegir bæjarins hafi verið búskapur og garðyrkja. Eiginmaður hennar, Jóel Kristinn, var einmitt garðyrkjumaður og rak garðyrkjustöð.

Hún segir breytingarnar á bænum þessa áratugi miklar og aðallega til góðs. „Já, mikil ósköp. Hann hefur breyst og þróast eins og samfélagið.“

Salome segir bæinn afar fallegan. „Hann býr að því að vera sambland af sveit og bæ, sérstaklega Reykjahlíðin. Bærinn er gróðursæll og hefur mörg útivistarsvæði.“

Spurð hvort hún sakni einhvers úr gamla bænum, segist hún helst sakna Reykjahlíðarinnar, þar sem hún bjó til sextíu ára eða þar til eiginmaðurinn lést 2007. Hún uni sér þó vel í þjónustuíbúðinni sem hún býr í að Eiðhömrum í miðbæ Mosfellsbæjar.

Aðspurð segist hún trúa því að bærinn geti haldið sérkennum sínum þrátt fyrir áframhaldandi fjölgun íbúa. Nóg sé af landrými og bærinn hafi næg útivistarsvæði.

Salome var sæmd titilinum heiðursborgari Mosfellsbæjar árið 2007 og deilir þeim titli með Jóni M. Guðmundssyni og Halldóri Laxness. Hún segir útnefninguna hafa komið flatt upp á sig. „Ég tók á móti þeim heiðri með hrærðum hug og þakklátum. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í því að byggja upp þennan bæ,“ segir Salome en hún sat í hreppsnefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn í 16 ár áður en hún fór á þing.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert