Vilja stytta bið eftir byggingarleyfum

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek skipa efstu tvö sæti ...
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek skipa efstu tvö sæti á lista Viðreisnar í komandi sveitarstjórnarkosningum. mbl.is/RAX

Viðreisn ætlar að stytta biðtíma eftir byggingarleyfum í Reykjavík ef flokkurinn kemst til valda. Flokkurinn leggur til að skipa starfshóp til að yfirfara ferli vegna veitingar byggingarleyfa sem mun hafa það markmið að fækka stjórnsýsluskrefum vegna veitingar byggingarleyfa og stytta afgreiðslutíma þannig að „Reykjavík verði fremst höfuðborga Norðurlandanna þegar kemur að skilvirkni og afgreiðsluhraða“.

Viðreisn vísar í til tölfræði frá Alþjóðabankanum (e. World Bank) og kemur þar fram að Ísland er mikið eftir á öðrum höfuðborgum Norðurlandanna í flokknum „veiting byggingarleyfa“.

Fjöldi skrefa til þess að fá byggingarleyfi á Íslandi eru 17 miðað við 7 í Kaupmannahöfn. Þá er biðtíminn 84 dagar í Reykjavík meðan hann er 64 dagar í Kaupmannahöfn og 65 dagar í Helsinki.

Inn með úthverfin

Þetta er meðal þeirra tillagna sem forystufólk Viðreisnar í komandi sveitarstjórnarkosningum kynnti á blaðamannafundi í dag. Yfirskrift fundarins, sem haldinn var í Gamla kaffihúsinu í Breiðholti, var „Inn með úthverfin“.

Þórdís og Pawel kynna tillögur Viðreisnar.
Þórdís og Pawel kynna tillögur Viðreisnar. Rax / Ragnar Axelsson

Á fundinum fóru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, og Pawel Bartoszek, sem skipar annað sæti á lista Viðreisnar, yfir „fullmótaðar tillögur“ flokksins í atvinnuþróun og uppbyggingu. Flokkurinn stefnir á að leggja tillögurnar fram í borgarstjórn strax í framhaldi af kosningum.

Lækkun fasteignaskatta

Önnur tillaga sem Þórdís og Pawel kynntu var tillaga Viðreisnar um lækkun fasteignaskatta vegna atvinnuhúsnæðis. Fasteignaskattar eru í dag 1,65% af fasteignamati sem er lögbundið hámark. Viðreisn gerir tillögu um að lækka þennan skatt á seinni hluta kjörtímabilisins í tveimur skrefum þannig að árið 2021 lækki hann í 1,63% og árið 2022 í 1,60%.

Tillögunni er ætlað að verða liður í því að tryggja samkeppnishæfni Reykjavíkurborgar þegar kemur að því að laða til sín vinnustaði.

Þriðja tillagan sem Viðreisn kynnti var tillaga um að borgarstjórn samþykki að veita 30 milljónum árlega til atvinnuþróunar í hverfum borgarinnar á árunum 2019-2021, eða samtals 90 milljónir króna á kjörtímabilinu.

Markmið tillögunnar er að efla atvinnuuppbyggingu í hverfum borgarinnar og á fjárhæðin að nýtast lögaðilum sem stunda rekstur í atvinnuskyni í borginni. Lagt er til að úthlutun fari fram gegnum borgarsjóð og við úthlutun skuli sérstaklega litið til mótframlags atvinnurekanda, sjálfbærni og áhrifa á nærsamfélag.

mbl.is