Vilja íbúðabyggð á reit BSÍ

Lýsingar Eyþórs á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn æltar að lækka íbúðaverð …
Lýsingar Eyþórs á því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn æltar að lækka íbúðaverð voru myndrænar. mbl.is/Arnþór

Eyþór Arnalds og Hildur Björnsdóttir, sem skipa efstu sætin á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, kynntu í dag áform Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum á blaðamannafundi í Ikea. Þau sýndu á myndrænan hátt hvernig þau ætla sér að lækka húsnæðisverð í borginni, auk þess sem þau kynntu áform sín um íbúðabyggð á reit BSÍ.

Í máli Eyþórs kom fram að 56% af heildarbyggingarkostnaði væri framkvæmdakostnaður. 44% kostnaðar er lóðaverð, hönnunarkostnaður, fjármagnskostnaður og annar kostnaður. „Nú er verið að spá í að setja innviðagjald ofan á þetta. Svo eru það tafir í kerfinu, þegar menn eru búin að fá lóðir, búnir að fjárfesta fyrir háar upphæðir, þá bíða þeir stundum í tvö ár upp í tíu ár. Tafirnar kosta mikið, vextirnir eru háir og þetta lendir allt á húsnæðinu á endanum.“

Lækka heildarbyggingarkostnað um 20%

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka aukakostnað við heildarbyggingarkostnað með því að lækka opinber gjöld á byggingarlóðir, minnka kvaðir sem valda hærra húsnæðisverði og einfalda stjórnsýslu þannig að afgreiðslutími verði eðlilegur. Með þessum atriðum einum og sér ætlar flokkurinn að kostnaður lækki um 20%.

mbl.is/Arnþór

„Við ætlum að blása til stórsóknar í húsnæðismálum og tryggja stóraukið framboð lóða,“ sagði Hildur. Auk þeirra lóða sem áður hafa verið nefndar í þessu samhengi, Örfirisey, Keldur og Mjódd kynnti hún nýjan reit sem Sjálfstæðisflokkurinn hyggst byggja á.

„Reiturinn sem við kynnum til leiks í dag er svokallaði BSÍ-reiturinn. Þessi reitur er tæpir 5 hektarar, hann er næstum jafn stór og Landspítalalóðin við Hringbraut. Núverandi meirihluti hefur enginn önnur áform fyrir þennan reit en að þar séu stæði fyrir rútur og bensínstöð.“

Íbúðir fyrir fyrstu kaupendur, stúdenta og eldra fólk

„Við viljum að þarna rísi byggð, við sjáum fyrir okkur að minnsta kosti 600 íbúðir. Þetta væri lágreist byggð. Við sjáum fyrir okkur íbúðir fyrir ungt fólk, fyrir stúdenta, fólk sem vinnur miðsvæðis og jafnvel eldra fólk sem sækir þjónustu á spítalann,“ sagði Hildur.

Að lokum fengu fjölmiðlar að horfa á stutt myndskeið sem sýndi hvernig byggð á BSÍ-reitnum gæti litið út.

Með því að halda fundinn í Ikea vildu þau sýna fram á að íbúðakostur þyrfti ekki að vera dýr eða flókinn. Fundurinn fór fram í 25 fermetra „íbúð“ í sýningarsal Ikea. „Þetta gæti verið góð lausn fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur og gæti auðveldað fyrstu skref inn á fasteignamarkað,“ sagði Hildur að lokum.

Hildur og Eyþór kynntu hugmyndir sínar í Ikea.
Hildur og Eyþór kynntu hugmyndir sínar í Ikea. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert