Með pólitísk merki á kjörstað

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, kýs í morgun með áberandi …
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, kýs í morgun með áberandi pólitískt barmmerki. Skjáskot af Rúv.is

„Ég veit til þess að að kjörstjórnir hafa verið að biðja bæði frambjóðendur og kjósendur um að taka niður barmmerki og annað slíkt. Þetta er alveg klárlega ólögmætur áróður á kjörstað,“ segir Eva B. Helgadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík.

Sjá má á myndbandi á fréttavef Ríkisútvarpsins af oddvitum framboðanna í Reykjavík greiða atkvæði að nokkrir þeirra hafa mætt með barmmerki á kjörstað. Þar á meðal Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, sem er með tvö áberandi barmmerki merkt X-F á sér þegar hún kemur á kjörstað og eitt þegar hún skilar atkvæði sínu.

Einnig er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar Reykjavíkur, með stórt barmmerki merkt X-O. Þá sést Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, með litla nælu með merki síns flokks og sömu sögu er að segja um Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Eva segir það alveg klárt að þetta sé ekki leyfilegt hver sem eigi í hlut.

Eva segir kjörstjórnum uppálagt að biðja fólk að fjarlægja slíkt merki og frambjóðendum kynnt það að sama skapi. „Þetta má ekki og kjörstjórnir fá þau fyrirmæli að biðja fólk um að taka niður allar merkingar hvort sem það eru frambjóðendur eða kjósendur.“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar Reykjavíkur, greiðir atkvæði með …
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Borgarinnar okkar Reykjavíkur, greiðir atkvæði með pólitískt barmmerki. Skjáskot af Rúv.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert