Fyrsti Framsóknarmaðurinn í 20 ár náði kjöri

Ágúst Bjarni Garðarsson er nýr bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn í Hafnarfirði.
Ágúst Bjarni Garðarsson er nýr bæjarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn í Hafnarfirði. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Öll atkvæði hafa nú verið talin í Hafnarfirði og meðal þeirra 11 bæjarfulltrúa sem kjörnir voru er Ágúst Bjarni Garðarsson, aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ágúst leiddi lista Framsóknarflokksins í bænum.

Það telst til nokkurra tíðinda að flokkurinn hafi fengið fulltrúa kjörinn þar sem 20 ár eru síðan það gerðist síðast. Sjálfur segir Ágúst augljóst að áherslur flokksins hafi höfðað betur til bæjarbúa nú en áður.

Síðasti bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði var Þorsteinn Njálsson sem var bæjarfulltrúi 1998-2002. Síðan þá hefur flokkurinn ekki fengið bæjarfulltrúa kjörinn en Ágúst Bjarni segir að einungis hafi munað níu atkvæðum að það hafi gerst í síðustu kosningum 2014.

Nú þarf fólk að fara að tala saman

Spurður um hvort áherslur Framsóknarflokksins í Hafnarfirði hafi að einhverju leyti verið aðrar nú en í fyrri kosningum segist Ágúst Bjarni telja að sú endurnýjun, sem hafi orðið í stefnu Framsóknarflokksins undanfarin ár á landsvísu, hafi haft þar mest áhrif. 

Og Ágúst Bjarni segir að nú taki við samræður á milli fulltrúa flokkanna um hvernig best sé að vinna saman. „Nú þarf fólk að fara að tala saman. En það er augljóst, út frá niðurstöðum kosninganna, að vinstri flokkarnir eru að tapa og þeir hægri halda sínu að mesu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert