Gleði og vonbrigði á Akureyri

Sóley Björk Stefánsdóttir, Dagbjörg Pálsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Halla Björk …
Sóley Björk Stefánsdóttir, Dagbjörg Pálsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Halla Björk Reynisdóttir, Ingibjörg Isaksen og Guðmundur Baldvin Guðmundsson hlýða á fyrstu tölur lesnar upp á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég er að sjálfsögðu mjög glöð. Þetta er framar okkar björtustu vonum, en ég bendi á að aðeins er búið að telja einn þriðja af atkvæðunum og við skulum því bíða og sjá hvað kvöldið ber í skauti sér. En þetta gefur vissulega vísbendingu um að meirihlutinn haldi," sagði Halla Björk Reynisdóttir, oddviti Lista fólksins á Akureyri, við blaðamann mbl.is, en L-listinn bætir við sig þriðja bæjarfulltrúanum miðað við fyrstu tölur.

Miðað við fyrstu tölur fær L-listinn þrjá bæjarfulltrúa, Framsóknarflokkurinn tvo og Samfylkingin tvo. VG heldur einum, Sjálfstæðisflokkurinn tapar einum og fær tvo og Miðflokkurinn nær einum manni inn í bæjarstjórn. Búið var að telja 2.000 atkvæði, 

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna, var að sjálfsögðu ekki kátur þegar blaðamaður greip hann glóðvolgan í húsnæði Verkmenntaskólans eftir að fyrstu tölur höfðu verið lesnar upp. „Ég er auðvitað ekki sáttur. Þetta er töluvert minna fylgi en ég átti von á og við gerðum ráð fyrir, miðað við þær skoðanakannanir sem voru komnar fram. En ég ætla að trúa því að þetta fylgi fari eitthvað upp á við þegar líður á nóttina,“ sagði Gunnar.

Nýliði í bæjarpólitíkinni, Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar, var hins vegar „bærilega sátt. Ég hefði viljað sjá þrjá menn og kannski á eitthvað eftir að breytast, hver veit? En tveir menn er yndislegt og sérstaklega gleðilegt ef meirihlutinn heldur velli og bætir jafnvel við sig einum manni. Það var ekki í pípunum til að byrja með.“ Spurð um framhaldið, segir Hilda Jana „Auðvitað er ekki búið að telja öll atkvæðin en fyrir minn smekk er það fyrsta eðlilega skrefið að þessi meirihluti tali saman, ef þetta verður niðurstaðan.“

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG, heldur sínu sæti miðað við fyrstu tölur. „Við höfðum auðvitað vonast eftir meira fylgi en erum ekki mjög ósátt. Það er fullt af góðu fólki í framboði, við höfum ekki fengið mikla athygli á málefnin og við vitum líka að dræm kjörsókn er ekki góð fyrir okkur vegna þess að unga fólkið er oft dálítið á okkar línu."

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarmana, sagðist fyrst og fremst ánægður með að halda tveimur mönnum eins og stefnt hefði verið að. „Meirihlutinn heldur miðað við fyrstu tölur og Sjálfstæðisflokkurinn er meira að segja að tapa, sem er athyglisvert. En nóttin er ung og mikið á eftir að telja ennþá; við skulum ekki fara fram úr okkur," sagði Guðmundur Baldvin.

Hlynur Jóhannsson, oddviti Miðflokksins, verður nýr bæjarfulltrúi ef úrslit verða í samræmi við fyrstu tölur. „Við skulum bíða og sjá. Ég er ekki frá því að Miðflokksfólk hafi sofið vel út í morgun, farið svo út að hreyfa sig og kosið seint! Það verður því að spennandi að sjá hvað gerist þegar næstu tölur verða gefnar upp," sagði hann.

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Hlynur Jóhannsson, efsti maður á …
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Hlynur Jóhannsson, efsti maður á lista Miðflokksins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert