Ganga út frá því að stærsti flokkurinn leiði

Eyþór Arnalds í Útvarpshúsinu í gærkvöldi.
Eyþór Arnalds í Útvarpshúsinu í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sjálfstæðisflokkurinn er langstærstur og það hefur verið svona hefð að stærsti flokkurinn leiði borgarstjórnina. Það var þegar Jón Gnarr vann sinn sigur og svo Samfylkingin og nú erum við með þennan sigur,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavík í samtali við mbl.is.

Borgarstjórnarhópur flokksins kom saman í dag og Eyþór segir að hugur hafi verið í nýkjörnum fulltrúum flokksins. Engar formlegar þreifingar eru hafnar á milli flokka sem fengu fulltrúa kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur í gær.

„Við erum ekki að útiloka neinn og erum bara með opinn huga og jákvæð fyrir því að koma að góðum málum,“ segir Eyþór.

Staða Viðreisnar við myndun nýs meirihluta í borginni þykir sterk, en flokkurinn með sína tvo borgarfulltrúa gæti snúið sér í hvora áttina sem er, gengið inn í núverandi meirihluta eða myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokk og fleiri flokkum. Því hefur verið velt upp hvort þessi lykilstaða flokksins gæti fært Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur oddvita Viðreisnar borgarstjórastólinn.

„Við göngum út frá því að stærsti flokkurinn sé með borgarstjórann eins og hefur verið og nú eru niðurstöðurnar mjög skýrar og ég myndi segja að það væri niðurstaða kosninganna,“ segir Eyþór við því.

Hann segir að Viðreisn hafi lagt áherslu á málefnin og að málefnastaðan sé „mjög skyld“ á milli Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar.

„Samfylkingin lagði dálítið upp úr því að Dagur yrði kosinn borgarstjóri, en niðurstaðan varð sú að Samfylkingin fékk mun minna fylgi heldur en Sjálfstæðisflokkurinn og ef meiningin var að gera þetta að borgarstjórakosningum, þá var þetta niðurstaðan,“ segir Eyþór.

mbl.is