Meirihlutinn fallinn í Eyjum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum er fallinn en lokatölur liggja fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn fær þrjá bæjarfulltrúa af sjö en hafði áður fimm fulltrúa. Flokkurinn hlaut 73,2% atkvæða 2014 en að þessu sinni 45,4%.

Eyjalistinn fékk 20,3% og einn fulltrúa en hafði tvo á síðasta kjörtímabili. Hins vegar fær nýtt framboð, Fyrir Heimaey, þrjá bæjarfulltrúa eða jafnmarga og Sjálfstæðisflokkurinn. Framboðið var stofnað sem klofningur úr röðum sjálfstæðismanna. Einungis munaði sex atkvæðum að Sjálfstæðisflokkurinn næði fjórða bæjarfulltrúanum inn.

Þetta getur þýtt að Eyjalistinn verði í oddastöðu. Einnig er möguleiki að Sjálfstæðisflokkurinn og Fyrir Heimaey taki höndum saman. Hins vegar sagði Elliði Vignisson, oddviti sjálfstæðismanna, í kosningabaráttunni að næði flokkurinn ekki meirihluta yrði hann líklega í minnihluta á næsta kjörtímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina