Sigmundur uppveðraður

Frá fundi formanna flokkanna á RÚV í kvöld.
Frá fundi formanna flokkanna á RÚV í kvöld. Skjáskot/ruv.is

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagðist uppveðraður vegna árangurs flokksins í kosningunum. Sósíalistaflokkur Íslands er líklega að taka fylgi af VG í Reykjavík að mati Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þetta var meðal þess sem fram kom í umræðuþætti formanna flokkanna á RÚV í kvöld. 

Þar óskaði Katrín frambjóðendum Sósíalistaflokksins í Reykjavík til hamingju.

„Að sjálfsögðu hefði ég viljað sjá okkur bæta við okkur,“ sagði Katrín. „Það eru vonbrigði fyrir mig að sjá okkur detta út í Hafnarfirði og Kópavogi, en á sama tíma erum við að fá góða kosningu í Skagafirði og Borgarbyggð.“

Hún sagði vonbrigði að meirihlutinn í borginni virtist vera fallinn. Það væri umhugsunarefni að um 1% þjóðarinnar væri í framboði og að í borginni hefðu verið 16 framboð og sum þeirra virtust tala fyrir svipuðum málum.

Erum í lykilstöðu

„Eins og staðan er núna erum við í lykilstöðu í borginni,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. „Það er ljóst að það verða breytingar í borginni,“ sagði hún og sagði flokkinn vera að koma vel út víða um land og að hann væri að festa sig í sessi. „Þetta er bara rétt að byrja hjá okkur,“ sagði Þorgerður Katrín.

Vantaði sex atkvæði

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins sagðist ekki bara vera sáttur við árangur flokksins í kosningunum heldur uppveðraður. „Það er ekkert mjög langt síðan ég  var spurður um hvort við ætluðum að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum. Við ákváðum að gera það, við settum met áður en það var kosið því enginn nýr flokkur hefur boðið fram á jafn mörgum stöðum. Mér sýnist við vera að ná bæjarfulltrúum á flestum þessara staða,“ sagði Sigmundur, en Miðflokkurinn býður fram í 12 sveitarfélögum. Hann bætti við að vissulega væri hægt að finna eitthvað til að svekkja sig á, t.d. hefði vantað sex atkvæði upp á að tveir bæjarfulltrúar næðust inn í Fjarðarbyggð.

Ekki búinn að gefa upp von

„Ég var að vonast til að við næðum Ingvari inn og ég er svosem ekkert búinn að gefa upp þá von,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og var þar að vísa til þess að samkvæmt þeim tölum sem nú hafa birst úr Reykjavík er Ingvar Mar Jónsson, oddviti Framsóknar í borginni ekki inni. „En víðast hvar, t.d. í Hafnarfirði þar sem við höfum ekki verið með mann í 20 ár erum við með öruggan mann inni.“

Sigurður Ingi sagði flokkinn vera að auka við sig víða. Spurður um hvað skýrði þessa stöðu í borginni sagði hann líklega nokkrar ástæður fyrir því. Félagsstarf flokksins í borginni væri t.d. ekki nægilega öflugt. 

Nóttin er ung, segja Píratar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati sagði gleðiefni að flokkurinn væri kominn með mann inn í Kópavogi. „Við hefðum vonast til að fá meira,“ sagði hún spurð um stöðu Pírata í borginni. „En nóttin er ung og okkar kjósendahópur fer líklega seinna á kjörstað en aðrir og ég er ennþá á því að við munum ná inn öðrum manni. Við hefðum viljað sjá Alexöndru Briem fara inn, það hefði verið sögulegt að þar hefði fyrsta transkonan komist inn í borgarstjórn á Íslandi. “

Þórhildur Sunna sagði Pírata tilbúna til að starfa með öllum þeim sem væru traustsins verðir. Hún hefði verið ánægð með samstarfið á síðasta kjörtímabili.

Glaðasólskin um hánótt

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að eins og staðan væri núna væri „glaðasólskin um hánótt“, en Kolbrún Baldursdóttir, oddviti flokksins í Reykjavík, er nú komin inn. Spurð um með hvaða flokkum Flokkur fólksins myndi vilja starfa sagði Inga að flokkurinn hallaðist ekki að þeirri stefnu sem rekin hefði verið í borginni undanfarið. En þau væru tilbúin til að starfa með öllum sem settu fólk í fyrsta sæti.

Fóru í kosningarnar til að sækja fram

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þröskuldurinn við að bjóða fram og fá fólk kosið hefði lækkað með tilkomu samfélagsmiðla og vegna ýmissa annarra þátta. Ómögulegt væri að segja til um hvaða áhrif þetta hefði til frambúðar. 

„Sjálfstæðisflokkurinn fór í þessar kosningar til að sækja fram og fella meirihlutana í Reykjavík og í höfuðstað Norðurlands, Akureyri,“ sagði Bjarni. „Það á eftir að spila úr þeim niðurstöðum sem við erum að fá.“

Heldur að Dagur verði ennþá borgarstjóri

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að vissulega yrði breyting á meirihlutanum í borginni vegna þess að Björt framtíð væri farin út. „En ég held að Dagur verði ennþá borgarstjóri og að menn nái að mynda stjórn með nýjum flokkum. Samfylkingin er að stimpla sig inn sem forystuafl í félagshyggjustjórnmálum,“  sagði Logi.

mbl.is