Sjálfstæðisflokkurinn kominn í 9 menn

Eyþór Arnalds á kosningavöku Sjálfstæðismanna.
Eyþór Arnalds á kosningavöku Sjálfstæðismanna. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfstæðisflokkurinn fær 9 borgarfulltrúa kjörna samkvæmt nýjustu tölum í Reykjavík þegar 33.882 atkvæði eru talin. Hefur flokkurinn bætt við sig tveimur fulltrúum frá síðustu tölum og tekur frá bæði Vinstri grænum og Pírötum.

Samkvæmt núverandi tölum er Samfylkingin með sjö borgarfulltrúa, Viðreisn er áfram með tvo fulltrúa, en Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkur Íslands, Miðflokkurinn, Píratar og Vinstri grænir eru með einn fulltrúa hvert framboð.

Sjálfstæðiflokkurinn fær 32,0% atkvæða, Samfylkingin 26,2%, Viðreisn 7,9%, Píratar 7,1%, Miðflokkurinn 6,2%, Sósíalistaflokkur Íslands er með 6,1%, Vinstri græn með 4,6% og Flokkur fólksins með 4,4%.

Síðasti maður sem kom inn er frá Sjálfstæðisflokkinum, en næstur inn er næsti fulltrúi Pírata. Munar aðeins 5 atkvæðum á að Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, annar maður Pírata komist inn í stað Jórunn Pálu Jónasdóttur í Sjálfstæðisflokkinum.

Verði þetta niðurstaða kosninganna þýðir það að Samfylkingin þyrfti að lágmarki að fá fjóra aðra flokka í meirihlutasamstarf með sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert