Talið aftur að ósk VG og Samfylkingar

Samfylkingin og VG óskuðu eftir því við yfirkjörstjórn að atkvæðin …
Samfylkingin og VG óskuðu eftir því við yfirkjörstjórn að atkvæðin yrðu talin aftur. mbl.is

Endurtalning atkvæða fer fram í Hafnarfirði á morgun, að beiðni Samfylkingar og Vinstri grænna. Bæði framboðin misstu einn bæjarfulltrúa með örfáum atkvæðum samkvæmt lokatölum úr sveitarfélaginu.

Tíu atkvæði vantaði upp á að þriðji maður Samfylkingarinnar kæmist inn og einungis fimm atkvæði skorti til að oddviti VG næði inn í bæjarstjórn.

„Það er búið að bunka þetta allt upp eftir flokkum, svo þetta er mun fljótlegra en upphafleg talning,“ segir Þórdís Bjarnadóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Hafnarfirði.

Heildarfjöldi talinna atkvæða stemmdi og því er eini möguleikinn á villu við talninguna sá að atkvæði hafi slæðst í ranga bunka við flokkun.

Átta talningamenn koma saman kl. 17 á morgun og telja atkvæðin á ný að viðstöddum umboðsmönnum framboðanna.

Að sögn Þórdísar verður ekki farið aftur yfir þau atkvæði sem metin voru ógild af yfirkjörstjórn, þar sem ekki kom fram ósk um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert