Viðreisn með pálmann í höndunum

Stefanía Óskarsdóttir er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Stefanía Óskarsdóttir er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Viðreisn er í algjörri lykilstöðu við myndun nýs meirihluta í Reykjavík. Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við blaðamann mbl.is tvísýnt hvort Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, nái að halda áfram sem borgarstjóri, jafnvel þótt Samfylkingin nái að mynda meirihluta. Viðreisn sé með pálmann í höndunum.

Það segir Stefanía að hljóti að vera „ákveðið svekkelsi“ fyrir Dag, sem hefur verið stillt upp sem borgarstjóranum með stóru B í herferð Samfylkingarinnar fyrir kosningar.

„Manni sýnist það að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn að bjóða Viðreisn borgarstjórastólinn,“ segir Stefanía og bætir við að það boð gæti Viðreisn notað til þess að „semja við Dag, sem þyrfti þá að gefa eftir borgarstjórastólinn í skiptum fyrir stuðning Viðreisnar“.

Hún telur þó að mögulega sé flötur fyrir samtarfi Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins.

„Viðreisn hefur sett málin þannig fram, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins að það þurfi að eiga sér stað breytingar og að ekki sé hægt að halda áfram á sömu braut og verið hefur,“ segir Stefanía.

Samfylkingin gæti líka myndað meirihluta án Viðreisnar, ásamt Pírötum, Vinstri grænum, Sósíalistaflokknum og Flokki fólksins.

„Þá þarf Dagur að fá Flokk fólksins með sér, sem gefur skít í borgarlínu og stekkur ekki endilega strax á vagninn, en er örugglega opin þó fyrir viðræðum. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast,“ segir Stefanía.

Verður Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar næsti borgarstjóri?
Verður Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar næsti borgarstjóri? mbl.is/Kristinn Magnússon

Sósíalistaflokkurinn hirti róttæka fylgið

Vinstri græn náðu einungis inn einum manni í borgarstjórn og kjörfylgið, 4,6%, er minna en skoðanakannanir hafa sýnt síðustu mánuði. Stefanía segir að þessi tiltölulega slaki árangur VG skrifist að miklu leyti á uppgang sósíalista á síðustu metrum kosningabaráttunnar.

Því hefur verið velt upp hvort slakur árangur VG í höfuðborginni og víðar sé sökum óánægju með ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk og það segir Stefanía vera að einhverju leyti rétt, kjósendur VG hafi oft verið þeir sem eru að einhverju leyti í mótstöðu við kerfið.

„VG hefur í gegnum tíðina höfðað við til fólks sem styður ekki endilega ríkjandi stjórnvöld og nú er VG að leiða ríkisstjórn. Það opnar á krítík frá vinstri og Sósíalistaflokkurinn stekkur inn í það rými,“ segir Stefanía.

Of snemmt er að segja til um hvort slakur árangur VG í sveitarstjórnarkosningunum hafi einhver áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið, að mati Stefaníu, en hún virðist þó ekki hafa tröllatrú á því að ríkisstjórnin haldi til næstu ætluðu alþingiskosninga.

„Ríkisstjórnarmeirihlutinn er tæpur, það vita allir. Það er ýmislegt í gangi í VG.“

mbl.is

Bloggað um fréttina