„Einn fundur á döfinni fljótlega“

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er að fá símtöl úr báðum áttum og ég skal alveg vera hreinskilin við þig að það er einn fundur á döfinni fljótlega. En ég get ekki sagt mikið meira um það í bili,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is spurð um stöðuna varðandi meirihlutaviðræður í kjölfar borgarstjórnarkosninganna.

„Við erum opin fyrir öllu, ég hef alltaf sagt það. Við setjum bara fólkið fyrst og málefnin okkar og sjáum svo hvernig það mátast og reyna að standa við loforðin sem er aðalatriðið hjá okkur. Þannig að ég tala við alla,“ segir hún. Spurð hvort til greina komi að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Miðflokknum eins og Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, lagði til í umræðum í sjónvarpi í gær segir hún það koma til greina.

„Það er algjörlega einn möguleikinn. En eins og ég segi þá má líka ræða í hina áttina. Við erum þarna bara fyrir fólkið í borginni og við skoðum alla möguleika varðandi það hvernig við getum þjónað hagsmunum þess best,“ segir Kolbrún. Flokkur fólksins fékk einn borgarfulltrúa af 23 kjörinn í borgarstjórnarkosningunum á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert