Kröfur Eyjalistans ekki hunsaðar

Eyjalistinn er í oddastöðu í Vestmannaeyjum. Flokkurinn fékk einn mann ...
Eyjalistinn er í oddastöðu í Vestmannaeyjum. Flokkurinn fékk einn mann kjörinn en Sjálfstæðisflokkurinn og Fyrir Heimaey þrjá menn hvor. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við förum fram með ákveðnar kröfur og þær verða ekkert hunsaðar,“ segir Njáll Ragnarsson bæjarfulltrúi Eyjalistans, sem er í oddastöðu í Vestmannaeyjum. Flokkurinn fékk einn mann kjörinn en Sjálfstæðisflokkurinn og Fyrir Heimaey þrjá menn hvor.

Njáll segir óformlegar viðræður hafa átt sér stað við báða flokkana í gær. „Við vorum að fara þar yfir úrslit kosninganna, hvernig samstarf þau sjá fyrir, hvar við erum sammála málefnalega og hvar okkur greinir á og hvernig við viljum forgangsraða næstu árin.“

Eyjalistinn muni svo funda með baklandi sínu í kvöld. „Við verðum með félagsfund þar sem farið verður yfir málin og væntanlega fáum við einhverja vísbendingu um það hvað við gerum í framhaldinu.“

Fyrir Heimaey mun einnig funda með baklandi sínu í kvöld og staðan þá metin að sögn oddvitans Írisar Róbertsdóttur. Hún telur málefnalegan grundvöll fyrir frekari viðræðum við Eyjalistann. „Það var mín upplifun að mestu leyti að þetta væri jákvætt,“ segir hún.

Njáll segir Eyjalistann enn ekki útiloka samstarf við neinn. „Auðvitað er þetta snúin staða að mörgu leyti og kannski ekki jafn auðvelt og margir myndu halda, en ég held að það sé ekkert búið að loka á neitt,“ segir hann.

Spurður hvort hann muni selja sig dýrt kveðst hann Eyjalistann horfast í augu við það að hafa misst mann í kosningunum og átti sig á þeirri stöðu. „En þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um það að gera það sem er best fyrir bæinn og þá er það kannski vilji bæjarbúa að hagsmunir bæjarins verði teknir ofar hagsmunum okkar,“ segir Njáll. „Við erum í oddastöðu og vitum af  því og í öllum okkar samningum þá hugsum við út í það að gleymast ekki í þessu öllu saman.“

Eyjalistinn fari fram með ákveðnar kröfur sem ekki verði hunsaðar, til að mynda í menntamálum. „Við fórum af stað með ákveðnar pælingar í skólamálum og viljum setja púður í það, svo kemur bara í ljós hver er tilbúinn að vinna með okkur að því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina