Telja grundvöll á samstarfi við D-lista

Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt óformlegar viðræður við þá flokka sem fengu …
Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt óformlegar viðræður við þá flokka sem fengu mann kjörinn í Hafnarfirði. mbl.is

Það er nákvæmlega ekkert að frétta,“ segir Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar sem fékk einn mann kjörinn í Hafnarfirði. Óformlegar þreifingar voru þó í gangi í gær milli Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði sem fékk fimm menn kjörna og annarra þeirra flokka sem fengu mann kjörinn í bænum, utan Samfylkingar.

At­kvæði voru endurtalinn í Hafnar­f­irði í gær að ósk Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en bæði fram­boðin misstu einn bæj­ar­full­trúa með ör­fá­um at­kvæðum sam­kvæmt loka­töl­um úr sveit­ar­fé­lag­inu. Endurtalning breytti hins vegar engu um niður­stöðu kosn­ing­anna.

 „Ég held að það séu bara einhverjar þreifingar í gangi,“ segir Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir bæjarfulltrúi Bæjarlistans í Hafnarfirði. „Ég vissi að Rósa [Guðbjartsdóttir oddiviti Sjálfstæðisflokksins] ætlaði ekki að ræða við Samfylkinguna fyrr en búið væri að telja og staðan lagi fyrir, sem er bara eðlilegt.“  

Fulltrúar Miðflokks og Framsóknar og óháðra staðfesta að rætt hafi verið við sig á óformlegum nótum, en hvorki náðist í Rósu né Öddu Maríu Jóhannsdóttur, oddvita Samfylkingarinnar, við vinnslu fréttarinnar.

Eigi samleið með Sjálfstæðisflokknum

Guðlaug kveðst telja Bæjarlistann og Sjálfstæðisflokkinn geta átt gott samstarf áfram. Fulltrúar Viðreisnar og Miðflokksins, sem telja einnig grundvöll á samstarfi milli síns flokks og Sjálfstæðisflokksins.

„Ég kem út úr fjögurra ára samstarfi með Rósu. Það hefur verið mjög gott og ég tel  grundvöll fyrir að halda því áfram, en það byggir þá bara á málefnum og samkomulagi,“ segir Guðlaug.

„Það eru alveg snertifletir,“ segir Jón Ingi. „Þetta snýst alltaf fyrst og síðast um það hvernig við getum samið um framgang okkar mála. Ef við teljum að við getum komið okkar helstu málum í gegn þá ræðum við að sjálfsögðu við Sjálfstæðisflokkinn.“

Í sama streng tekur Sigurður Þ. Ragnarsson bæjarfulltrúi Miðflokksins. „Við hjá Miðflokknum erum búin að bera stefnuskrár flokkanna saman og það er mjög góður samhljómur í öllum meginatriðum,“ segir hann. „Auðvitað þarf alltaf að semja um eitthvað en hvað stóra ramman varðar þá er mjög svipuð nálgun á verkefnum. Þannig að mér sýnist það yrði ekki til að búa til vandamál.“

Farið of mikill tími í karp

Þá telur Sigurður að vel geti dregið til tíðinda í bæjarpólitíkinni í Hafnarfirði í dag. „Hverjir setjist niður og hefji formlegar meirihlutaviðræður, en það er ekkert fast í hendi,“ segir hann.

Enginn oddvitanna fjögurra sem mbl.is ræddi við hafði þó verið boðaður til fundar vegna málsins í dag.

Jón Ingi segir stöðuna í sjálfu sér vera mjög einfalda en um leið líka flókna. „Svo snýst þetta líka alltaf um persónur og hvort það sé hægt að byggja traust. Rósa finnur það hjá sér með hverjum hún telur sig geta átt best samstarf,“ segir hann.

„Vandinn hérna í Hafnarfirði er að það hefur farið of mikil orka í  að karpa innbyrðis og í karp milli minni- og meirihluta og það þarf að hætta. Við þurfum að snúa okkur að því sem skiptir máli sem er bara Hafnarfjörður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert