„Gengur vel að drekka kaffi“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, gerir ráð fyrir að …
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, gerir ráð fyrir að línur skýrist fyrir helgi. mbl.is/Arnþór

„Það gengur vel að drekka kaffi og spjalla, en það eru engar fréttir,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í samtali við mbl.is. Vel gangi að fara yfir málin og hann telji stöðuna vera farna að skýrast.

Eyþór segir Sjálfstæðisflokkinn hafa verið að ræða við aðra flokka í dag og fara yfir málefnin eins og gert hafi verið í gær. „Fólk er að fara yfir málin,“ segir hann.

Fleiri fundir með öðrum flokkum eru á dagskrá hjá Eyþóri í dag, en hann kveðst þó ekki vilja tjá sig nánar um þá. „Við leyfum fólki að melta stöðuna og láta skynsemina ráða för,“ segir hann og kveðst telja líklegt að línur skýrist fyrir helgi.

Hef aldrei útilokað neinn

Spurður hvort að Sjálfstæðisflokkurinn útiloki samstarf við einhverja flokka í borgarstjórn segir hann svo ekki vera. „Ég hef aldrei útilokað neinn sjálfur,“ segir Eyþór. „Mér finnst mikilvægt að fólk sýni þroska, sérstaklega í sveitastjórn þar sem fólk er kosið til fjögurra ára og ekki er hægt að kalla til nýrra kosninga. Þá á fólk ekki að útiloka neitt sem erfitt getur verið að kyngja eftir á.“

Niðurstaða kosninganna sé hins vegar alveg skýr. „Fólk vill breytingar og við erum stærsti flokkurinn og við höfum sagt alveg frá því fyrstu tölur voru birtar að það er niðurstaðan. Ég held að allar aðrar niðurstöður séu flóknar og erfitt að kyngja þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert