Mynda frjálslynda stjórn jafnréttis

Hljóðið í Dóru Björt var gott þegar blaðamaður mbl.is sló …
Hljóðið í Dóru Björt var gott þegar blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til hennar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum mjög ánægð með þetta og erum upptekin af því að koma góðum hlutum í gegn fyrir borgarbúa. Við erum í stjórnmálum til þess að breyta samfélaginu,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík.

Hljóðið í henni var gott þegar blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til hennar í kjölfar þess að tilkynnt var að Viðreisn, Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn ætluðu að hefja formlegar meirihlutaviðræður á morgun. „Okkar róttækni felst í því að skila árangri fyrir fólkið í borginni og það gerum við í gegn um meirihlutasamstarf.“

Aðspurð hvers vegna hún telji að Viðreisn hafi valið þennan kost fremur en að fara í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn segir Dóra Björt það vera góða spurningu. „Það er kannski vegna þess að með þessu móti er hægt að mynda frjálslynda stjórn jafnréttis og velferðar. Það er margt sem sameinar okkur og Viðreisn þegar kemur að frjálslyndi.“

Viðreisn leggi mikið upp úr jafnrétti

Jafnframt segir hún flokkana þrjá sem sátu í meirihluta á síðasta kjörtímabili alla jafnréttissinnaða. „Það er eitthvað sem Viðreisn leggur gríðarlega mikla áherslu á. Flokkarnir hinum megin eru náttúrulega frekar íhaldssamir allir, sem er hugmyndafræðilega á öðrum póli en bæði Píratar og Viðreisn. Þannig að þetta kemur mér ekkert á óvart að það hafi ekki komið endilega til greina.“

„Önnur ástæða er náttúrlega sú að við Píratar vorum búnir að teikna þetta val algerlega upp fyrir Viðreisn með því að afneita Sjálfstæðisflokknum,“ segir Dóra Björt og að fleiri flokkar hafi gert slíkt hið sama. „Við einfölduðum þetta auðvitað og teiknuðum þetta upp.“

„Við erum auðvitað bara heiðarlegur flokkur og upptekin að heiðarlegum gildum og segjum bara satt og rétt frá og erum ekkert í einhverju pólitísku spili.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert