„Hlutverk mitt að sætta sjónarmið“

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er hlutverk mitt sem oddvita að sætta sjónarmið. Ég mun leggja mikið upp úr því að það náist sátt um næstu skref, hver svo sem þau kunna að vera, en það verður erfitt að ná sátt um áframhaldandi samstarf við BF-Viðreisn,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Komið hefur í ljós að Karen Halldórsdóttir, Margrét Friðriksdóttir og Guðmundur Gísli Geirdal, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, vilja ekki vinna með BF-Viðreisn en Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð voru í meirihluta í síðustu bæjarstjórn.  

Theódóra Þorsteinsdóttir, oddviti BF-Viðreisnar, sagði afstöðu bæjarfulltrúanna vera rýting í bak Ármanns.

Spurður út í ummæli hennar segist Ármann telja eðlilegast að bæjarfulltrúarnir svari fyrir sig. „Mér fannst samstarfið við Theódóru og Bjarta framtíð vera gott á síðasta kjörtímabili. Það voru margir góðir hluti sem komust í höfn. Hvað okkur varðar þá ríkti mikið traust á milli þessara tveggja oddvita,“ segir hann um Theódóru.

Er búið að lægja öldurnar í Kópavogi?

„Það er ljóst að það er að myndast sátt. Þegar þú ert með flokk sem er með þetta marga bæjarfulltrúa er ljóst að sjónarmiðin geta orðið mörg og ég þarf að taka tillit til þeirra sem oddviti,“ segir Ármann. 

Verður þú áfram bæjarstjóri?

„Við eigum vonandi eftir að taka þátt í að mynda meirihluta og eftir það skýrist það allt saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert