Ráðast strax í að einfalda kerfið

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, skrifar undir málefnasáttmála meirihlutans í …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, skrifar undir málefnasáttmála meirihlutans í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ánægðust með samhljóminn og samtóninn í nýja meirihlutanum, af því að fyrir framan okkur eru fjögur ár af bara hellings verkefnum,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar og nýr formaður borgarráðs Reykjavíkur.

Hún segir ánægð með að hafa náð inn í meirihlutasáttmálann málum sem Viðreisn kom með að borðinu og nefnir þar sérstaklega að atvinnulífið í borginni verði tekið föstum tökum, „umhverfisvinkil“ nýja meirihlutans og jafnréttismál, sem Þórdís Lóa segir að verði „tekin skrefinu lengra heldur en hefur verið áður“.

Þá hafi samstarfsflokkarnir tekið mjög jákvætt í hugmyndir Viðreisnar um að „einfalda kerfið“ og sérstaklega Píratar, sem Þórdís Lóa segir að hafi að miklu leyti deilt sömu sýn og Viðreisnarfólk, t.d. í málum er varða rafræna stjórnsýslu.

„Það var mjög mikill samhljómur með okkur og Pírötum í öllu sem sneri að því að einfalda lífið, einfalda kerfið, hafa það gegnsætt og ekki síst að hafa það gagnvirkt,“ segir Þórdís Lóa.

Fækka skrefum til þess að fá byggingarleyfi

Viðreisn talaði um það fyrir kosningar að fækka þyrfti skrefunum til þess að fá byggingarleyfi í Reykjavík og á kynningarfundi Viðreisnar í vikunni áður en gengið var til kjörklefa kom fram að þessi skref væru 17 hérlendis en einungis 7 í Kaupmannahöfn.

Þórdís Lóa segir að í þetta eigi að ráðast strax, en í meirihlutasáttmálanum segir að flokkarnir ætli að einfalda skipulags- og byggingarferla hjá borginni og jafnframt þrýsta á ríkið að einfalda laga- og regluumhverfi þess.

„Það þarf að greina þessi skref niður og búa til það sem heitir „ferill viðskiptavinarins“ í gegnum þessi skref. Við gerðum það aðeins í undirbúningi kosninganna við Pawel og við sáum að þetta voru alltof mörg skref og allt of flókin. Þetta þurfum við að leggjast yfir, átta okkur á því hvað við getum sameinað og hvað við getum þétt. Það eru alls kyns svona hlutir sem við förum bara strax í og við sjáum það fyrir okkur að við eigum ekki að vera neinir eftirbátar Dana þegar kemur að einfaldleika fyrir atvinnurekendur varðandi þetta,“ segir Þórdís Lóa.

Útsvarsprósentan í Reykjavík verður óbreytt, í hámarki. Þórdís Lóa segir það aldrei hafa verið markmið Viðreisnar að lækka útsvarið eða hrófla við því.

„Í kosningabaráttunni lögðum við upp með að lækka fasteignaskatta og það eru fleiri álögur sem lækka núna, við munum lækka álögur á barnmargar fjölskyldur og gera það í tveimur skrefum á kjörtímabilinu. Barnmargar fjölskyldur eiga eftir að finna fyrir því, sem eru með börn á báðum skólastigum,“ segir Þórdís Lóa.

Þétta byggðina í úthverfunum líka

Varðandi borgarþróunina þá kemur það nokkuð skýrt fram í meirihlutasáttmálanum að borgin verði ekki þanin út með uppbyggingu nýrra úthverfa utan núverandi borgarmarka. Þórdís Lóa segir að Viðreisn muni leggja áherslu á að það innan meirihlutasamstarfsins að tengja úthverfin betur við önnur hverfi borgarinnar og að byggð innan núverandi úthverfa verði þétt eins og kostur er.

„Við komum inn í þetta með mjög skýra línu, sem er „Inn með úthverfin“, þannig að það verði passað upp á öll þessi hverfi hérna, Breiðholtið, Árbæinn, Grafarvoginn, Grafarholtið og þar verði þétt eins og mögulegt er. Ekki síst að tengja þau betur samgöngum, það verða að vera þéttar og góðar samgöngur. Okkur er mjög umhugað um það að úthverfin verði ekki úthverfi, þau verði í rauninni hverfi í borginni. Bæði tengist það þjónustu, atvinnulífi og samgöngum. Við lögðum mikla áherslu á þetta og fengum góðar viðtökur við þessu inni í samstarfinu,“ segir Þórdís Lóa.

„Við lögðum líka mikla áherslu á að það yrði ekki bara þétting í miðbænum, heldur líka þétting í Ártúnsholtinu, í Elliðaárvoginum, í Keldum og Keldnaholti, þarna eru gríðarlega vannýtt svæði sem myndu hafa veruleg áhrif á atvinnulíf, þjónustu og samgöngur. Það er okkar sýn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert