Rýrt að lofa inn í þarnæsta kjörtímabil

Oddvitar Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks ræddu nýjan meirihluta í Kastljósinu í …
Oddvitar Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks ræddu nýjan meirihluta í Kastljósinu í kvöld. Skjáskot/Kastljós

Engar nýjar hugmyndir er að finna í stjórnarsáttmála nýs meirihluta, umfram það sem gamli meirihlutinn var með. Þá er mikið verið að tala um hluti sem ekki munu gerast fyrr en á þarnæsta kjörtímabili. Þetta sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósi RÚV í kvöld. Nefndi hann m.a. íbúabyggð í tengslum við fyrirhugaða borgarlínu.

„Þó að það verði farið á fullt í það, þá er það ekki að gerast á þessu kjörtímabili,“ sagði Eyþór og kvað vanta skýr, mælanleg markmið í stjórnarsáttmálann. Fyrirhuguð lækkun fasteignaskatta á fyrirtæki eigi sömuleiðis ekki að komast á fyrr en í lok kjörtímabilsins. „Þannig að þar er verið að lofa inn í þarnæsta kjörtímabili og það finnst mér vera rýrt.“

Ekki sé heldur verið að taka á stjórnkerfinu og áfram verði útsvarið í Reykjavík það hæsta á höfuðborgarsvæðinu. 

Fóru ekki í stóladans

Þórdís Lóa, sagði vissulega rétt hjá Eyþór að ýmis mál munu fara yfir á næsta kjörtímabil. „Þetta eru afar stór verkefni eins borgarlínan, sem hefur raunar verið kosningamál síðustu tvær kosningar,“ sagði hún. „Síðan eru aðrar aðgerðir eins og í skólamálum, sem er farið í strax.“

Þau hafi þá verið skýr á því að vilja lækka fasteignaskatta á fyrirtæki. Þau viti hins vegar vel uppsveifla eins og sú sem verið hefur sé ekki endilega varanleg „og við viljum vera tilbúin að mæta því. Góð borg verður ekki góð ef hér er engin vinna,“ sagði Þórdís Lóa.

Spurð hvers vegna Viðreisn hefði ekki gert kröfu um borgarstjóraembættið, sagði hún flokkinn ekki hafa farið af stað í stóladans í meirihlutasamræðunum. „Við höfðum skýra sýn og lítum á okkur sem nýtt og ferskt afl. Við fórum í þetta samtal og vildum sjá sanngjarna leið á það hvernig verkefni og hlutverk liggja og erum sátt. Þetta lagðist svona og við það erum við sátt,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert