„Froðuskjal sem fær falleinkunn“

Líkt og kosningaloforðin hafi gufað upp segja talsmenn minnihlutans í …
Líkt og kosningaloforðin hafi gufað upp segja talsmenn minnihlutans í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihlutasáttmáli Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna í Reykjavík ber merki þess, að þar er verið að samræma kosningaloforð fjögurra flokka. Í sáttmálanum er ekki að sjá nokkur stór mál sem flokkarnir ýmist lofuðu eða töluðu fyrir í kosningabaráttunni.

Ekki er að sjá í sáttmálanum áform Samfylkingarinnar um Miklubraut í stokk. Vinna við framkvæmdir borgarlínu er ekki tímasett en fyrir kosningar hugðist Samfylkingin klára samninga um borgarlínu árið 2018 og hefja framkvæmdir 2019 auk þess að leiða hraðari umferð í gegnum hverfi neðanjarðar. Ekki er heldur minnst á sundlaug í Úlfarsárdal eða ylstrendur í Gufunesi og á Laugarnesi.

Píratar lofuðu 140 þúsund króna niðurgreiðslu til þeirra barna sem ekki fá leikskólapláss en ekkert er um það fjallað í meirihlutasáttmálanum né hugmynd þeirra að lækka kosningaaldur í 16 ár þegar kosið er til sveitastjórna.

Vinstri græn náðu ekki markmiðum sínum um að afnema gjaldtöku í leik- og grunnskólum, né endurvekja verkamannabústaði í samráði við verkalýðsfélögin. Vinstri græn sögðust ætla að hafa lýðræðislegt samráð um að opna Laugaveg fyrir gangandi umferð. Það loforð er ekki efnt í sáttmálanum þar sem skjalfest er að meirihlutinn ætli að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið.

„Sáttmálinn er froðuskjal sem fær falleinkunn. Þetta eru 16 blaðsíður af fallegum orðum en mælanleg markmið og hagræðingu má telja á fingrum annarrar handar,“ segir Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert