Ásthildur nýr bæjarstjóri á Akureyri

Ásthildur Sturludóttir.
Ásthildur Sturludóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Ásthildi Sturludóttur um að taka að sér starf  bæjarstjóra á Akureyri.  Hún tekur við af Eiríki Birni Björgvinssyni sem var bæjarstjóri síðustu átta ár.

Alls sóttu 18 um starf bæjarstjóra en 2 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.  Eftir úrvinnslu umsókna og viðtöl ákvað meirihluti bæjarstjórnar að ganga til samninga við Ásthildi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

Ásthildur starfaði sem bæjarstjóri í Vesturbyggð frá árinu 2010. Hún er uppalin í Stykkishólmi og er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu (Master of Public Administration) í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York. Ásthildur starfaði áður sem verkefnisstjóri  á rektorsskrifstofu og markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands. Hún var einnig verkefnisstjóri við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf.

mbl.is