Samfylkingin fundar á laugardag um framboðslista í Reykjavík

Samfylkingin skipar að líkindum framboðslista til Alþingis í Reykjavíkurkjördæmunum á …
Samfylkingin skipar að líkindum framboðslista til Alþingis í Reykjavíkurkjördæmunum á laugardag. mbl.is/Hari

Samfylkingarfélögin í Reykjavík hafa boðað til allsherjarfjarfundar á laugardag, þar sem grein verður gerð fyrir vinnu og niðurstöðu uppstillingarnefndar undanfarnar vikur. Tillaga hennar að framboðslistum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur verður þar kynnt og borin upp til samþykktar eða synjunar

Vakin er athygli á því í fundarboði að tillaga uppstillingarnefndar fyrir bæði kjördæmi sé heildstæð og verði borin upp þannig í samræmi við fyrri samþykkt um uppstillinguna. Þar var nefndinni falið „að setja saman sigurstranglega framboðslista fyrir bæði kjördæmin vegna alþingiskosninganna í haust í samræmi við reglur flokksins um paralista eða fléttulista“.

Tekið var fram að uppstillingarnefnd skuli fá undirritun frambjóðenda í efstu 5 sætum beggja lista á samning um réttindi og skyldur frambjóðenda Samfylkingarinnar áður en tillagan er lögð fyrir allsherjarfund Fulltrúaráðs Samfylkingarfélaganna í Reykjavík (FSR).

Fari svo að allsherjarfundurinn hafni tillögu uppstillingarnefndar, er tvennt í stöðunni að sögn Harðar J. Oddfríðarasonar, formanns stjórnar SFR og uppstillingarnefndar. Annars vegar að vísa málinu aftur til uppstillingarnefndar eða að boða til annars fundar til þess að taka ákvörðun um aðra leið til þess að skipa framboðslistana.

Fjörleg framboðsmál

Sem kunnugt er spannst nokkur umræða um störf uppstillingarnefndarinnar, sem beitti „sænsku leiðinni“ svonefndu við val á listann. Í henni fólst að óskað var eftir uppástungum flokksmanna um frambjóðendur, en síðan var gerð óbindandi skoðanakönnun á netinu um á fimmta tug frambjóðenda, sem uppstillingarnefndin gæti haft til hliðsjónar við störf sín. Ekki var hreyft andmælum við þeirri aðferð, þó að áhöld væru um hversu vel hún samræmdist reglum flokksins um val á framboðslista.

Eftir skoðanakönnunina kvisaðist út hverjir hefðu fengið mestar undirtektir í henni og nokkur þrýstingur á að þeirri röð yrði haldið, þrátt fyrir að þar hefði ekki verið um eiginlegt prófkjör að ræða og að sérstaklega kynnt að niðurstöðurnar væru óbindandi. Kvörtuðu sumir frambjóðendur undan því að þeir hefðu af þeim sökum ekki haft sig í frammi meðan aðrir hefðu stundað hefðbundna smölun og því væri ótækt að halda sig við þá niðurstöðu.

Þrátt fyrir að endanleg tillaga hafi þá ekki legið fyrir fór svo að Ágúst Ólafur Ágústsson alþingsmaður kvaðst ekki ætla að taka sæti á lista og eins afréð Rósa Björk Brynjólfsdóttir að leita frekar eftir því að komast á efsta sæti lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Nokkur kurr skapaðist vegna umfjöllunar um Ágúst Ólaf og sagði Birgir Dýrfjörð sig úr uppstillingarnefndinni af þeim sökum. Samfylkingarfólk, sem mbl.is ræddi við, telur að fundurinn geti orðið fjörlegur, þar sem þau mál séu ekki enn útrædd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert