Hvert atkvæði skipti gríðarlegu máli

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins sem mælist stærsti flokkur landsins.
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins sem mælist stærsti flokkur landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki góðs viti ef að flokkum heldur áfram að fjölga á þingi. Það hefur ekki reynst auðvelt að mynda ríkisstjórnir eftir síðustu kosningar og þetta gæti gerð stöðuna enn flóknari,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í samtali við mbl.is um nýja könn­un á fylgi flokk­anna fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar í haust sem unn­in er í sam­starfi mbl.is, Morg­un­blaðsins og MMR. 

Samkvæmt könnuninni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 24,6% fylgi og myndi halda sínum 16 þingsætum yrði gengið til kosninga í dag og myndi flokkurinn halda velli sem langstærsti flokkurinn á Alþingi. 

Samningsstaða flokksins yrði þó ekki betri en svo að bæði Samfylkingin og Píratar hafa útilokað samstarf með flokknum. Gunnar Smári Egilsson, leiðtogi sósíalista, í samtali við mbl.is í dag að Sósíalistar myndu ekki starfa með flokkum sem tengdust auðvaldinu og nefndi þeirra á meðal Sjálfstæðisflokk.

Þá kom fram í könnun Maskínu og Vísis að 71% kjósenda Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs væru mótfallnir áframhaldandi stjórnarsamstarfi. 

Bjarni segir þó stöðuna galopna samkvæmt könnuninni.

„Það getur brugðið til beggja vona hvað stjórnarmyndun varðar. Það munar ekki miklu að sumir flokkar nái inn á þing. Sjálfstæðisflokkurinn stendur ágætlega ekki síst þegar haft er í huga að í kosningum höfum við fengið töluvert betri niðurstöðu í kosningum en kannanir í aðdraganda kosninga hafa sýnt, undanfarin skipti,“ segir Bjarni. 

Hann segir að allt stefni nú í mjög spennandi kosningabaráttu. „Vegna þess hvernig atkvæðin eru að dreifast fer hvert atkvæði að skipta gríðarlega miklu máli.“

Bjarni segir óhætt að fullyrða að það sé mikil flóra á framboðshliðinni. Ýmist sé verið að boða áframhaldandi uppbyggingu og framhald á stöðuleika eða algjöra uppstokkun á öllum kerfum. 

„Við tekjum ekki mikla þörf á einhverri U-beygju núna heldur áframhaldandi lífskjarasókn á þeim grunni sem við höfum byggt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert