„Slétt sama hvaðan hugmyndin kemur“

Píratar eru ekki tilbúnir í samstarf með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki.
Píratar eru ekki tilbúnir í samstarf með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Píratar eru enn á þeirri línunni að vilja hvorki halda út í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki né Miðflokki en eru hins vegar tilbúnir í málefnalegt samstarf með hvaða flokki sem er, að sögn Björns Leví Gunnarssonar, oddvita Pírata í Reykjavík. 

MMR birti í dag könnun um fylgi flokkana í samstarfi við mbl.is og kennir þar ýmissa grasa; ríkisstjórnin heldur velli en ekki ríkisstjórnarflokkarnir, auk þess sem Píratar bæta við sig tveimur prósentustigum. 

„Við höfum verið mjög skýr með það hingað til að ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki er ekki inni í myndinni. En málefnalegt samstarf er það alltaf, það er í grunnstefnu okkar, ef fólk kemur með góða hugmynd er okkur alveg slétt sama hvaðan hugmyndin kemur,“ segir hann.

Píratar hafi ekki hug á að vinna með flokkum sem útiloka góðar hugmyndir ef þær koma ekki frá ríkisstjórnarflokki.

„Ég hef sagt margoft að Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega verður að fara að læra það að hann geti komið góðum málum í gegn án þess að sitja í ráðherrastól,“ segir hann.

En þið hljótið að fagna niðurstöðum könnunarinnar?

„Já og bara meira á leiðinni. Kosningabaráttan er rétt að byrja að þetta er gott innlegg í næstu skref. Stefnur og málefni verða einmitt bráðlega kynnt og það verður gaman að sjá hvernig fólk tekur því.“

mbl.is