Stjórnarmyndun ákaflega erfið

Ríkisstjórnin nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar, en fengi ekki þingstyrk til þess að halda velli ef kosið yrði í dag. Raunar blasir við að ríkisstjórnarmyndun yrði flóknari en nokkru sinni fyrr, því svo virðist sem níu stjórnmálaflokkar næðu kjöri á Alþingi. Þetta er meðal þess, sem lesa má úr niðurstöðum Spurningavagns MMR í samstarfi við mbl.is og Morgunblaðið.

Ríkisstjórnin nýtur sem oftast áður meirihlutastuðnings kjósenda, en samkvæmt könnuninni styðja 55% ríkisstjórnina en 45% ekki.

Hins vegar ná stjórnarflokkarnir ekki meirihluta, hvorki þegar horft er til samanlagðs fylgis, né dreifingar þingsæta. Þeir fá samanlagt 48% fylgi, en miðað við fylgisdreifingu allra flokka kæmi þá aðeins 31 þingmaður í hlut stjórnarflokkanna.

Þó ber að geta að útreikningur á dreifingu þingsæta miðast við fylgi flokka á landinu öllu, en fylgi flokka í einstökum kjördæmum getur ráðið hvernig þingsæti falla. Þegar þrjú framboð eru á mörkunum að ná 5% þröskuldinum eins og nú geta sáralitlar breytingar haft mikil áhrif.

Enginn sigurvegari

Þegar litið er á fylgi flokkanna er erfitt að halda fram að þar sé nokkur sigurvegari. Sósíalistar gætu að vísu hrósað sigri yfir að ná inn á þing, en sem fyrr segir er afar mjótt á munum og ekkert í hendi. Eins gætu Píratar fagnað því að bæta við sig þremur prósentustigum og tveimur þingsætum, nú eða Samfylkingin, sem fengi tvö ný sæti fyrir aðeins eins prósentustigs fylgisaukningu. Það má kalla góða nýtingu.

Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa án efa vonast eftir meiri árangri en þeim að halda sama fjölda þingsæta. Og hvað geta Vinstri græn þá sagt, flokkur hins vinsæla forsætisráðherra í stjórn, sem flestum ber saman um að hafi komist betur í gegnum heimsfaraldurinn og sennilega kórónukreppuna en flest önnur stjórnvöld geta státað af.
Færu kosningar á þessa leið í haust gætu núverandi stjórnarflokkar leitað liðsinnis hvaða annars þingflokks sem væri til að mynda fjögurra flokka stjórn.

Á hinn bóginn væri svo auðvitað hægt að reyna að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins, en hún þyrfti þá að vera fjögurra flokka hið minnsta, en þar yrðu Píratar á meðal, sem óvíst er að myndu þola stjórnarsamstarf vel. Eða aðrir flokkar samstarfið við þá. Án bæði Sjálfstæðisflokks og Pírata þyrfti hins vegar að mynda fimm flokka ríkisstjórn og væri hún þó með tæpan meirihluta, rétt yfir 51% fylgi og aðeins 33 þingmenn, svo sú stjórn gæti verið í gíslingu tveggja stjórnarþingmanna.

Þetta sýnir hversu þröng staðan væri með níu flokka á þingi, þar sem meðalfylgi annarra flokka en Sjálfstæðisflokks er um 9% og meðalþingflokkurinn með 6 manns.

Reglulegar fylgiskannanir 

Könnun þessi á fylgi stjórnmálaflokkanna er sú fyrsta í samstarfi rannsóknafyrirtækisins MMR við mbl.is og Morgunblaðið. MMR stundar umfangsmiklar markaðsrannsóknir og gerir einnig reglulegar fylgismælingar og tíðari en aðrir rannsóknaraðilar. Mælingarnar gefa mikilvægar vísbendingar um hið pólitíska landslag. Samstarfið mun gefa mbl.is og Morgunblaðinu kost á að dýpka og bæta fréttaflutning til lesenda. Könnunin var gerð dagana 8. til 14. júlí og var hluti af spurningavagni MMR. Í úrtakinu voru einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR sem valdir eru úr þjóðskrá.

Uppfært: Leiðréttur hefur verið sá fjöldi flokka sem þyrfti til að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks og án Sjálfstæðisflokks og Pírata. Upphaflega stóð að til þyrfti fimm flokka án Sjálfstæðisflokks og sex án Sjálfstæðisflokks og Pírata. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert