„Það er langt til kosninga“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

„Ég undirstrika að það er langt til kosninga,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is um nýja könnun á fylgi flokkanna fyrir alþingiskosningar í haust sem unnin er í samstarfi mbl.is, Morgunblaðsins og MMR. 

Í könnuninni mælist Viðreisn með 9,4% fylgi og myndi samkvæmt henni bæta við sig tveimur þingmönnum, yrði kosið í dag. Þorgerður kveðst þakklát fyrir að flokknum sé að vaxa ásmegin.

Segir andstöðu við EES-samninginn hættulega

„Hins vegar eru þessar kosningar sem nú eru í vændum einar mikilvægustu kosningar síðari ára, þannig að við gefum framtíðinni tækifæri. Að það verði ekki þessi kyrrstaða í prinsippmálum þjóðarinnar, hvort sem að við erum að tala um í auðlindamálum, stöðuleika í gjaldmiðli eða í heilbrigðismálum,“ segir Þorgerður. 

Hún segir að ekki verði tekið á þeim málum „með þeirri kyrrstöðustjórn sem nú er“.

Spurð út í mögulegt ríkisstjórnarsamstarf segir Þorgerður að ekkert sé útilokað en ljóst sé að lengra sé á milli Viðreisnar og tiltekinna flokka. 

Hún segist síður líta til öfganna á hvorum jaðri fyrir sig og segir teikn á lofti um aukin tök íhaldsafla í Sjálfstæðisflokknum. 

„Við sjáum í mínu kjördæmi er maður í baráttusæti sem er frekar andsnúinn EES-samningnum. Það er stórhættulegt fyrir íslenskt atvinnulíf og samkeppnishæfni okkar Íslendinga,“ segir Þorgerður.

mbl.is
Loka