„Við þurfum að spýta í lófana“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

„Þetta er bara hin fallegasta könnun,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is um nýja könn­un á fylgi flokk­anna fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar í haust sem unn­in er í sam­starfi mbl.is, Morg­un­blaðsins og MMR. 

Í könnuninni mælist Flokkur fólksins með 5,1% fylgi sem myndi fær þeim þrjá þingmenn yrði gengið til kosninga í dag. Þingflokkur Flokks fólksins er í dag tveir þingmenn en flokkurinn fékk fjóra kjörna á þing í síðustu alþingiskosningum. Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni var vísað úr flokknum eftirminnilega í kjölfar Klaustursmálsins svokallaða. 

„Það er athyglivert að eitt prósent fylgisaukning Samfylkingarinnar færi þeim tvo þingmenn. Svo að eitthvað þarf að breyta þessum reglum hvað varðar atkvæðavægi,“ segir Inga. 

Inga kveðst ánægð með að sjá kjörfylgið stöðugt þrátt fyrir að flokkurinn hafi ekki hafið kosningabaráttuna og enn ekki kynnt framboðslista. 

Oddvitar kynntir bráðlega

„Þetta er auðvitað minna en það sem við fengum áður en við rákum helminginn af þingflokknum. Við vorum með fleiri atkvæði en Viðreisn síðast. Við þurfum að bæta í og spýta í lófana,“ segir Inga. 

Inga segir að oddvitar verði kynntir bráðlega og það verði á þeirra höndum að kynna framboðslita í sínum kjördæmum spurð hvenær von sé að á framboðslistum flokksins. 

„Það er svo spurning þegar maður er farinn að taka eftir því að maður megi ekki gera neitt eða segja neitt þá er einhverjir aðrir sem tileinka sér það. Það eru einhverjir flokkar að kalla eftir stefnuskránni okkar, ég held að þeir ættu að hugsa um sína eigin,“ segir Inga. 

Spurð hvort að Inga finni fyrir mikilli samkeppni við Sósíalistaflokkinn segir hún svo ekki vera enda einbeiti hún sér bara að sínu. „En það hefði verið sniðugra að þau hefðu bara komið til okkar sem vorum til fyrir. Fyrir utan að kommúnismi er ekki vinsælt stjórnarfar í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert