Sósíalistar kvarta til umboðsmanns Alþingis

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Jón Helgi

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, hefur sent formlega kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna framkvæmdar kosninga utan kjörfundar. Þetta staðfestir Gunnar í samtali við mbl.is.

Sósíalistaflokkurinn gerir athugasemdir við það að á auglýsingu um listabókstafi þeirra flokka sem bjóði fram til Alþingis séu nýir flokkar settir í annan dálk en þeir flokkar sem buðu fram 2017.

Kjósendur geta skoðað listabókstafina á auglýsingu á kjörstað en þeir þurfa sjálfir að skrifa listabókstaf þess flokks sem þeir hyggjast greiða atkvæði á kjörseðil. Gunnar Smári segir það fyrirkomulag að hafa nýja flokka í öðrum dálki gera þeirra framboð „neðanmáls“.

Skjáskot/Stjórnartíðindi

Sósíalistar eins og boðflennur

„Mér finnst það augljóst að það er ekki jafnræði með listunum sem mér finnst bara vera grundvallaratriði,” segir Gunnar. Hann telur þetta fyrirkomulag hjálpa rótgrónari flokkum.

„Okkar framboð er með nákvæmlega stöðu og öll önnur framboð, við eigum að vera í sömu stöðu gagnvart þessum kosningum og þau framboð sem hafa boðið fram áður. Samt eru þau höfð í fyrstu deild en síðan erum við settir í einhverja aðra deild eins og við séum boðflennur í þessu partíi.“

Í kvörtuninni er sagt frá hjónum sem hafi ætlað að kjósa utan kjörfundar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafði starfsmaður sýslumanns tjáð þeim að Sósíalistaflokkurinn væri ekki kominn með listabókstaf. Þau hafi síðan séð J-skráninguna á auglýsingunni en þá hafi starfsmaðurinn sagt að sá listabókstafur væri gamall og ekki gildur.

Eldri flokkar hagnist á fyrirkomulaginu

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafnar því að þetta verklag sé viðhaft. Hins vegar sé framboðsfrestur ekki liðinn og því séu kjósendur alltaf upplýstir um það og að því liggi ekki fyrir hvaða flokkar séu í framboði.

Gunnar segist ekki skilja tilganginn með því að aðgreina nýja flokka frá þeim sem buðu fram árið 2017.

„Fjöldi fólks hefur sagt að það sé mjög undarlegt að koma og kjósa þarna þar sem því sé raunverulega haldið frá þér hvaða valkosti þú hefur. Það gæti verið að þú skrifir inn S fyrir Sósíalistaflokkinn og reynir að giska á eitthvað. Af hverju er verið að hafa kosningar óljósar? Hver hefur hag á því? Kannski þeir sem hafa auglýst listabókstafinn sinn í 90 ár. Ég veit það ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert